Þór og Njarðvík skildu jöfn á Akureyri í dag þar sem gestirnir náðu tveggja marka forystu snemma í síðari hálfleik en heimamenn komu til baka. Fótbolti.net ræddi við Sigurð Heiðar Höskuldsson, þjálfara Þórs, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 2 - 2 Njarðvík
„Það á að vera 4-0 eftir fjórar mínútur allavega miðað við færin. Vorum svo flottir í næstu tíu mínútur á eftir en svo gefum við þeim smá mómentið og við náum ekki að sækja það aftur. Mér fannst vanta tempó í liðið varnarlega, þeir fengu mikinn tíma á boltanum en opnuðu okkur ekkert en fá sénsa úr föstum leikatriðum," sagði Siggi Höskulds.
„Svo mætum við út í seinni hálfleikinn og gefum þeim auðveldasta mark sumarsins, svo annað, þá fannst mér við svolítið litlir. Svo fáum við mikið 'power' síðustu 25 mínúturnar og óheppnir að ræna þessu ekki í lokin."
Aron Einar Gunnarsson kom inn á sem varamaður í sínum fyrsta leik með Þór í sumar og leikur liðsins umturnaðist við það.
„Það sýnir hvað alvöru karakter getur smitað trú inn í liðið. Nákvæmlega það sem liðinu hefur vantað lengi, týpur sem ná að smita einhverja orku í samherjana. Leikurinn umturnast síðustu tuttugu mínúturnar," sagði Siggi.