Saliba til Real, Costa til City, Chilwell til Man Utd, Ramsey eftirsóttur og Van Dijk fær nýjan samning
banner
   fim 10. október 2024 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
„Carsley og Guardiola sjá leikinn á sama hátt"
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Varnarmaðurinn knái John Stones verður með fyrirliðaband Englands á heimavelli gegn Grikklandi í Þjóðadeildinni í kvöld og hrósaði hann Lee Carsley bráðabirgðaþjálfara í hástert á fréttamannafundi í gær.

Stones talaði vel um Carsley og gerði svo samanburð á honum og Pep Guardiola, þjálfara Manchester City sem er talinn vera einn af allra bestu þjálfurum heims.

Carsley tók við enska landsliðinu sem bráðabirgðaþjálfari eftir að Gareth Southgate sagði upp starfinu og virðist vera líklegur til að vera ráðinn í starfið þar sem hann er mjög vel liðinn innan leikmannahópsins.

„Allir þjálfarar eru með sinn eigin leikstíl og ég get oft séð líkindi á milli hvernig þeir vilja spila. Þegar ég hugsa til Lee (Carsley) og Pep (Guardiola) þá sjá þeir leikinn á sama hátt, þeir vilja að við gerum mjög mikið af sömu hlutunum," sagði Stones meðal annars á fréttamannafundinum.

„Þetta kemur sér mjög vel fyrir mig, ég þarf lítið að aðlagast þegar ég spila með landsliðinu. Þjálfarateymið vinnur mikla rannsóknarvinnu á því hvernig hlutverk við spilum fyrir félagsliðin okkar og þeir hjálpa okkur í aðlögunarferlinu á milli leikstíla."

Til gamans má geta að Lee Carsley lék sem djúpur miðjumaður á sínum ferli sem atvinnumaður í fótbolta, alveg eins og Pep Guardiola. Hann náði þó aldrei sömu hæðum og spænski kollegi sinn sem fótboltamaður.
Athugasemdir
banner
banner
banner