„Þetta var kaflaskipt. Við vorum ekki nægilega góðir í fyrri hálfleik, en við tókum okkur saman í andlitinu og seinni hálfleikurinn var langt um betri. Við náðum þessum mörkum sem þurfti og sigurinn var okkar," sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, eftir 2-1 sigur á ÍR í Lengjubikarnum í dag.
ÍA hefur farið mjög vel af stað í Lengjubikarnum og er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Gunnlaugur segir að hægt sé að laga nokkra hluti.
„Ég er ánægður með þessi níu stig sem eru komin í hús, ég er ánægður með marga hluti í þessum leikjum, en okkur vantar kannski að hafa meiri heilsteyptari leik í 90 mínútur."
Það risatíðindi úr herbúðum ÍA í gær þar sem bæði Ármann Smári Björnsson og Iain Williamson tilkynntu að þeir væru hættir knattspyrnuiðkun. Gunnlaugur tjáði sig um þetta.
„Þetta er ekki alveg það sem við áttum von á. Við vissum að það gæti brugðið til beggja vona með hann Ármann, en við bjuggumst þó við því að hann myndi koma til baka í sumar á einhverjum tímapunkti. Varðandi Iain, þá var það ekki í spilunum að hann myndi hreinlega hætta, en meiðsli hans eru þannig að það var ekkert annað í stöðunni fyrir hann."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir























