„Tilfinningin er bara geggjuð. Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum í hvítu og svörtu," segir miðjumaðurinn Katla María Þórðardóttir sem snemma á þessu ári í raðir FH eftir að hafa leikið með Örebro í Svíþjóð.
Katla María er 23 ára og kemur til FH eftir ár með Örebro í Svíþjóð. Hún getur bæði spilað á miðju og í vörninni.
Katla María er 23 ára og kemur til FH eftir ár með Örebro í Svíþjóð. Hún getur bæði spilað á miðju og í vörninni.
Hún hefur spilað með Keflavík, Fylki, Selfossi og Örebro á sínum ferli.
FH hefur áður reynt að sækja Kötlu en það tókst loksins í þetta skiptið.
„Þeir ætluðu að heyra í mér tímabilið áður en ég fór út og ég var aðeins búin að funda með þeim fyrir það. Síðan settist ég niður með þeim núna og mér fannst eiginlega ekkert aftur snúið eftir það," segir Katla.
„Ég er mjög ánægð að hafa tekið skrefið að fara í FH. Mér líst ógeðslega vel á þetta. Liðsheildin er geggjuð, þjálfararnir frábærir og umgjörðin mjög góð. Ég er ótrúlega spennt fyrir komandi tímum," segir Katla.
Kemur heim sem betri leikmaður
Hún tók eitt tímabil í Svíþjóð og vonast til að fara aftur út í atvinnumennsku síðar. Eftir að Örebro féll úr sænsku úrvalsdeildinni, þá fannst Kötlu rétt að taka skrefið aftur heim.
„Tíminn í Svíþjóð var mjög góður. Þetta var erfitt tímabil en ég fékk mjög mikla reynslu og ég held að ég hafi þroskast sem einstaklingur og leikmaður inn á vellinum," segir Katla.
Hún var í Íslendingaliði þarna úti en Bergþóra Sól Ásmundsdóttir og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir léku einnig með Örebro á sama tíma. Þær eru núna báðar komnar í Víking.
„Þetta var mjög gaman. Ég, Áslaug og Begga vorum mikið saman. Þetta hefði ekki verið eins án þeirra."
„Mig langaði að vera áfram úti en þegar liðið féll þá sá ég ekki ástæðu til að vera áfram. Hugurinn leitaði heim eftir það," segir Katla. „Þetta skeði, liðið féll og þess vegna ákvað ég að koma heim. Mig langar að sanna það að ég hef bætt mig og ég er miklu betri leikmaður áður en ég fór út."
Katla fékk nýtt hlutverk á meðan hún var leikmaður Örebro. Áður en hún fór út var hún að mestu varnarsinnaður miðjumaður en hún lék sem sóknarsinnaður miðjumaður í Svíþjóð og telur hún sig hafa bætt leik sinn mikið. Hún er spennt fyrir komandi sumri með FH-ingum í Bestu deildinni.
„Það var ekkert sem heillaði mig eins og FH. Ég er ógeðslega spennt og tilhlökkun fyrir komandi sumar," sagði Katla en allt viðtalið er í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir