Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 11. maí 2021 10:12
Elvar Geir Magnússon
Kjartan Henry hættur hjá Esbjerg (Staðfest) - Á leið í KR
Kjartan Henry hefur yfirgefið Esbjerg.
Kjartan Henry hefur yfirgefið Esbjerg.
Mynd: Esbjerg
Sóknarmaðurinn Kjartan Henry Finnbogason er laus allra mála hjá danska liðinu Esbjerg. Hann er á leið til KR.

Esbjerg staðfestir á heimasíðu sinni að leiðir félagsins og Kjartans hafi skilið. Kjartan átti að vera hjá félaginu út tímabilið en nú er ljóst að liðið kemst ekki upp í úrvalsdeildina.

Samningnum hefur því verið rift þegar þrír leikir eru eftir, svo Kjartan geti gengið í raðir KR áður en félagaskiptaglugganum á Íslandi verður lokað annað kvöld.

Vegna meiðsla náði Kjartan aðeins að spila átta leiki fyrir Esbjerg.

Kjartan er 34 ára og er uppalinn hjá KR en fór ungur til Celtic. Hann lék í Svíþjóð, Noregi og Skotlandi áður en hann kom aftur heim til KR og lék með liðinu 2010-2014. Á þeim árum varð hann tvívegis Íslandsmeistari með KR og þrisvar bikarmeistari.

Hann gekk svo í raðir Horsens 2014 og hefur leikið í Danmörku og Ungverjalandi þar til hann snýr nú aftur í Vesturbæinn. Kjartan á þrettán landsleiki fyrir Ísland og þrjú mörk.

Ólafur Kristjánsson fékk hann til Esbjerg en gengi liðsins hefur hrunið á lokaspretti tímabilsins og Ólafur var rekinn í gær.

KR er með þrjú stig eftir tvær umferðir í Pepsi Max-deildinni en liðið mætir Fylki annað kvöld. Reikna má með því að Kjartan verði klár í slaginn og búinn að ljúka sóttkví þegar KR mætir Val næsta mánudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner