Monza er búið að staðfesta félagsskipti spænska miðvarðarins Pablo Marí sem mun leika með félaginu í að minnsta kosti eitt tímabil.
Marí kemur á eins árs lánssamningi frá Arsenal með skilyrðistengdri kaupskyldu. Takist nýliðum Monza að halda sér uppi í efstu deild verður Mari keyptur fyrir 5 milljónir evra en ef nýliðarnir falla þá heldur miðvörðurinn aftur til Arsenal þar sem hann á tvö ár eftir af samningi.
Mari er 28 ára og hefur aðeins spilað 22 keppnisleiki fyrir Arsenal. Hann var lánaður til Udinese á seinni hluta síðustu leiktíðar og stóð sig með prýði. Udinese og fleiri félög höfðu áhuga á Mari en hann endaði hjá nýliðum Monza.
Monza hefur farið á kostum á leikmannamarkaðinum í sumar og er búið að klófesta hátt í 20 leikmenn. Nýliðarnir virðast ætla að skipta út öllum leikmannahópinum sem komst upp úr Serie B í vor.
Félagið var einnig að bæta Marlon við sínar raðir. Brasilíski miðvörðurinn kemur á lánssamningi frá Shakhtar Donetsk en hann er 26 ára gamall og hefur áður verið hjá Barcelona, Nice og Sassuolo.
Monza er með rétt tæplega 40 manna leikmannahóp eins og staðan er í dag og þarf félagið að losa sig við fjölda leikmanna fyrir gluggalok.
Silvio Berlusconi, fyrrum eigandi AC Milan og forsætisráðherra Ítalíu, er eigandi Monza og er Adriano Galliani hans hægri hönd. Galliani er frægur í fótboltaheiminum fyrir að vera meistari á leikmannamarkaðinum en þeir félagarnir stjórnuðu AC Milan á gullárunum.