sun 11. október 2020 21:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hamren ósáttur með fyrstu tvö mörkin - „Ekki hægt að sjá boltann inni"
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Alltaf svekktur þegar við töpum. Þeir eru með sterkt lið og héldu boltanum vel. Mér fannst við fá bestu færin til að byrja með en markið breytir leiknum. Við ræddum málin í hálfleik en svo kemur vond ákvörðun, léleg skipulagning og staðan er 0-2. Þeir voru svo með forskotið að hafa spilað á miðvikudag ásamt því að hafa hvílt nánast allt liðið á meðan við lékum á fimmtudag," sagði Erik Hamren, landsliðsþjálfari, eftir tap gegn Danmörku í dag.

„Þeir skoruðu þriðja markið, frábært mark en ég var ekki sáttur með fyrstu tvö mörkin og þau hafa mjög mikil áhrif á leikinn."

Fannst Hamren að fyrsta mark Dana hafi átt að standa?

„Nei ég hef séð nokkur myndbrot af atvikinu og mér fannst boltinn ekki vera allur inni. Ég skil ekki hvernig aðstoðardómarinn getur séð þetta, það er ekki hægt að sjá hann inni í sjónvarpinu. Ég er alls ekki ánægður með þessa ákvörðun."

Bojan Pandzic, dómari leiksins, vakti ekki mikla lukku meðal Íslendinga í kvöld. Hamren var spurður út í hans frammistöðu. Hamren sagðist ekki tjá sig um dómara leikja og ætlaði ekki að gera það í dag heldur. Hann var ósáttur með fyrsta markið en annað vildi hann ekki tjá sig um dómara leiksins.

Innkastið átti ekki að fara á Rúnar
Annað markið var heldur klaufalegt. Rúnar Már Sigurjónsson átti skottilraun eftir innkast en boltinn féll í kjölfarið fyrir Christian Eriksen sem slapp einn í gegn. Var um samskiptaleysi að ræða í uppstillingunni í því atviki?

„Já þetta á ekki að gerast. Innkastið átti ekki að fara þangað og ef það fer þangað þá hefði átt að hreyfa liðið til, til að ná jafnvægi á skipulagið. Þetta voru mistök sem eiga heima í unglingaflokki."

Úr viðtali við Stöð 2 Sport:
Aðspurður hvort að Hörður björgvin Magnússon hafi átt að kasta boltanum út á Rúnar Má í innkastinu sagði Hamren: „Nei. Stundum tekur þú ákvarðanir í leikjum. Ef við hefðum verið í jafnvægi hefði þetta verið í lagi. Ef þú tekur skot þá verða að vera menn í kringum hann til að andstæðingurinn geti ekki hlaupið ein úr þessari stöðu. Þetta var slæmt hjá okkur í öðru markinu."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner