Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fös 11. október 2024 20:37
Brynjar Ingi Erluson
Stórkostleg innkoma Loga skipti sköpum á Laugardalsvelli
Icelandair
Logi Tómasson fagnar af innlifun gegn Wales
Logi Tómasson fagnar af innlifun gegn Wales
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Jón Dagur með boltann í leiknum
Jón Dagur með boltann í leiknum
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Logi skorar jöfnunarmarkið
Logi skorar jöfnunarmarkið
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ísland 2 - 2 Wales
0-1 Brennan Johnson ('11 )
0-2 Harry Wilson ('29 )
1-2 Logi Tómasson ('69 )
2-2 Logi Tómasson ('72 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið er komið með fjögur stig í B-deild Þjóðadeildar Evrópu eftir að hafa gert 2-2 jafntefli við Wales á Laugardalsvelli, Logi Tómasson átti innkomu ársins í síðari hálfleik og sá til þess að Ísland tæki stig úr leiknum.

Leikurinn var kaflaskiptur. Wales var með tökin á fyrri hálfleiknum og skapaði sér mörg góð færi.

Gestirnir skoruðu tvö keimlík mörk á átján mínútum. Fyrsta markið kom á 11. mínútu. Neco Williams kom með sendingu yfir vörnina og inn á Harry Wilson. Hákon Rafn Valdimarsson gerði vel, kom út á móti og varði skotið sem lak í átt að marki. Hákon náði að koma sér til baka og blaka boltanum af línunni en Brennan Johnson var réttur maður á réttum stað og potaði boltanum inn í markið af stuttu færi.

Wilson var nálægt því að bæta við öðru fyrir Wales nokkrum mínútum síðar en skot hans fór af Sverri Inga Ingasyni og í stöngina. Hákon Rafn var farinn í hitt hornið og Ísland því stálheppið að vera ekki 2-0 undir.

Því miður fyrir Ísland kom annað markið þegar tæpur hálftími var kominn á klukkuna. Aftur var það Williams sem setti boltann í gegn á Wilson sem skoraði í þetta sinn með góðu skoti framhjá Hákoni.

Andri Lucas komst nálægt því að minnka muninn eftir góða sókn Íslands aðeins tveimur mínútum eftir mark Wales. Andri fékk boltann í teignum stýrði honum í átt að marki. Danny Ward, markvörður Wales, var sigraður en Williams tókst að bjarga á línu.

Wales fór með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn og liðið líklegt til að bæta við, en tvær breytingar Åge Hareide í hálfleik skiptu sköpum.

Það kom allt annað íslenskt lið út í síðari hálfleik og var það Logi Tómasson sem tók leikinn í sínar hendur í sínum fimmta A-landsleik.

Mikael Egill Ellertsson kom einnig inn af bekknum og átti hættulega tilraun eftir sendingu Orra Steins Óskarsssonar en skotið framhjá. Orri átti þá sláarskot stuttu síðar og var aðeins tímaspursmál hvenær fyrsta markið kæmi.

Það kom á 69. mínútu eftir stutt horn. Jón Dagur lagði boltann út á Loga sem var ekkert að tvínóna við hlutina og tók þetta gullfallega utanfótarskot neðst í hægra hornið. Hans fyrsta landsliðsmark.

Þremur mínútum síðar jafnaði Logi metin. Aftur var það Jón Dagur sem gaf hælsendingu út á Loga vinstra megin. Hann rölti inn í teiginn upp að endalínu og potaði boltanum í átt að marki, sem fór af Ward og í netið. Mögnuð innkoma hjá Loga.

Íslenska liðið fékk fleiri færi til að fullkomna endurkomuna og átti Orri Steinn eitt slíkt er hann fékk boltann eftir slaka sendingu til baka frá Wes Burns en skot hans rétt framhjá markinu.

Undir lok leiks var Jón Dagur grátlega nálægt því að tryggja sigurinn. Hann fékk boltann vinstra megin við teiginn, lék á Williams áður en hann lét vaða með hægri en boltinn small í stönginni.

Lokatölur 2-2 og flott úrslit miðað við stöðuna í hálfleik. Ísland er með fjögur stig í D-riðli, einu stigi á eftir Wales sem er í öðru sætinu. Tyrkland, næsti mótherji Íslands, er í efsta sæti i með 7 stig eftir að hafa unnið Svartfjallaland 1-0 á heimavelli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner