Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 12. maí 2017 08:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 1.deild kvenna: 2. sæti
HK/Víking er spáð 2. sæti
HK/Víking er spáð 2. sæti
Mynd: HK/Víkingur
Jóhannes Karl þjálfar HK/Víking
Jóhannes Karl þjálfar HK/Víking
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Björk Björnsdóttir verður í markinu
Björk Björnsdóttir verður í markinu
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Reynsluboltinn Milena Pesic er með einn besta skotfótinn í deildinni
Reynsluboltinn Milena Pesic er með einn besta skotfótinn í deildinni
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
HK/Víkingur vann C-deild Lengjubikarsins nú fyrir skömmu
HK/Víkingur vann C-deild Lengjubikarsins nú fyrir skömmu
Mynd: Aðsend
Í sumar verður leikið í þremur deildum í meistaraflokki kvenna en spilað verður í Pepsi-deild, 1. deild og 2.deild í stað þess að 1.deildinni verði skipt upp í riðla og svo spiluð úrslitakeppni eins og verið hefur undanfarin ár.

Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1.deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. HK/Víkingur 136 stig
3. Keflavík 135 stig
4. Selfoss 126 stig
5. ÍR 94 stig
6. Þróttur 79 stig
7. Tindastóll 64 stig
8. Hamrarnir 52 stig
9. Víkingur Ó. 42 stig
10. Sindri 27 stig

2. HK/Víkingur
Lokastaða í fyrra: 1. sæti í A-riðli 1. deildar kvenna.
HK/Víkingur vann A-riðilinn í fyrra en tapaði svo heldur óvænt samanlagt 2-3 fyrir Haukum í 8-liða úrslitum.

Þjálfarinn: Jóhannes Karl Sigursteinsson tók við HK/Víking haustið 2015 eftir 5 ára pásu frá þjálfun. Hann er því að fara inn í sitt annað tímabil með liðið. Áður þjálfaði hann meistaraflokka Stjörnunnar og Breiðabliks og starfaði lengi sem yngri flokka þjálfari. Það vantar því ekkert upp á reynsluna á þeim bænum.

Styrkleikar: HK/Víkingur hefur verið í toppbaráttunni og spilað í úrslitakeppni 1.deildar undanfarin þrjú ár. Þar á undan lék liðið í úrvalsdeild. Liðið hefur dýrmæta reynslu af toppbaráttu en ætti um leið að vera hungrað í að klára dæmið og koma sér upp um deild. Þær eru vel skipulagðar af góðum þjálfara og umgjörð liðsins er líklega sú besta í deildinni. Þær eiga marga af efnilegustu leikmönnum deildarinnar í bland við nokkra öfluga eldri leikmenn sem gefa ríkulega af sér til ungu kynslóðarinnar. Þá hefur liðið litið vel út á undirbúningstímabilinu og hópurinn fer fullur sjálfstrausts inn í mótið eftir að hafa unnið sigur í C-deild Lengjubikarsins.

Veikleikar: Það eru ákveðin kynslóðaskipti að eiga sér stað hjá liðinu og ungir leikmenn virðast eiga að fá stór hlutverk í sumar. Það er spurning hvort að umbreytingarnar fari auðveldlega í gegn eða hvort það verði eitthvað hikst á meðan Jóhannes Karl sýður saman réttu blönduna.

Lykilmenn: Björk Björnsdóttir, Gígja Valgerður Harðardóttir og Margrét Eva Sigurðardóttir.

Gaman að fylgjast með: Það er nægur efniviður í herbúðum HK/Víkings og margir efnilegir leikmenn að fylgjast með. Linda Líf Boama er ungur sóknarmaður sem hefur verið að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki í vetur. Hún hefur staðið sig vel á undirbúningstímabilinu og skoraði til að mynda 5 mörk í fimm leikjum í Lengjubikarnum. Þá hefur Karólína Jack einnig brotið sér leið inn í byrjunarlið HK/Víkings en þar fer kröftugur leikmaður sem hefur vakið athygli í gegnum yngri flokkana og með U17 ára landsliðinu.

Komnar:
Maggý Lárentsínusdóttir frá FH
Margrét Sif Magnúsdóttir frá FH
Fjóla Sigurðardóttir frá Fram

Farnar:
Heiða Dröfn Antonsdóttir í barneignarleyfi
Anna María Guðmundsdóttir í leyfi
Björk Gunnarsdóttir í barneignarleyfi
Hugrún María Friðriksdóttir fór erlendis í nám
Guðrún Björg Eggertsdóttir fór erlendis í nám
Ester Lilja Harðardóttir í Aftureldingu/Fram
Ingunn Haraldsdóttir í KR
Unnbjörg Jóna Ómarsdóttir í Víking Ó.

Fyrstu leikir HK/Víkings:
13. maí ÍR - HK/Víkingur
17. maí HK/Víkingur - Þróttur R.
26. maí ÍA - HK/Víkingur
Athugasemdir
banner
banner