Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 12. maí 2022 21:10
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Keflvíkingar skoruðu þrjú í fyrsta sigrinum - Öruggt hjá Víkingum
Víkingar fagna góðum sigri á Fram
Víkingar fagna góðum sigri á Fram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Guðjónsson skoraði tvö gegn gömlu félögunum
Helgi Guðjónsson skoraði tvö gegn gömlu félögunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hlynur Atli skoraði laglegt mark fyrir Fram
Hlynur Atli skoraði laglegt mark fyrir Fram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam Ægir Pálsson gerði fyrsta mark Keflvíkinga
Adam Ægir Pálsson gerði fyrsta mark Keflvíkinga
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Íslandsmeistararnir í Víkingi unnu Framara 4-1 í 5. umferð Bestu deildar karla í kvöld á meðan Keflavík vann sinn fyrsta sigur í deildinni með því að leggja Leikni að velli, 3-0.

Nýliðar Fram komu orkumiklir inn í þennan leik og hótuðu marki á fyrstu mínútum leiksins svona rétt áður en Helgi Guðjónsson kom heimamönnum yfir gegn uppeldisfélaginu á 10. mínútu.

Logi Tómasson átti fyrirgjöf sem Oliver Ekroth skallaði fyrir markið og á Helga sem stangaði boltann í netið. Ellefu mínútum síðar bætti Erlingur Agnarsson við öðru marki.

Karl Friðleifur Gunnarsson labbaði í gegnum vörn Framara áður en hann lagði boltann út á Erling sem þrumaði honum upp í þaknetið og staðan 2-0.

Erlingur var aftur á ferðinni fimm mínútum síðar. Kristall Máni Ingason átti frábæra sendingu á Erling, sem fór framhjá Ólafi Íshólm í markinu og lagði boltann í autt netið.

Helgi Guðjónsson gat gert annað mark sitt í upphafi síðari hálfleiks en skot hans fór rétt framhjá markinu.

Framarar voru klaufalegir á síðasta þriðjungnum og voru oft nálægt því að koma sér í dauðafæri en vantaði upp á herslumuninn. Þeir náðu þó inn einu marki er glókollurinn Hlynur Atli Magnússon keyrði framhjá Loga áður en hann skaut boltanum í nærhornið. Fyrsta mark Hlyns í sumar.

Gestirnir vonuðust eftir því að þetta kæmi þeim inn í leikinn en svo var ekki. Fjórða mark Víkings kom á 67. mínútu er Birnir Snær Ingason kom með sendingu inn í teiginn. Varnarmaðurinn Delphin Tshiembe ætlaði sér að koma þessu frá en skaut boltanum í eigið net í staðinn.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir vildu Víkingar fá víti er Axel Freyr Harðarson féll í teignum eftir bakhrindingu en fengu ekki. Þetta virtist vera augljóst víti, en það gengur eitthvað minna þessa dagana fyrir liðið að næla sér í slíkt.

Þriðji sigur Víkinga staðreynd. Liðið er nú með 10 stig í 4. sæti deildarinnar en Fram með 2 stig í 11. sæti.

Fyrsti sigur Keflvíkinga

Það var mikill léttir fyrir Keflvíkinga að vinna Leikni 3-0 á HS Orku-vellinum í kvöld.

Keflavík tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni en gerði 3-3 jafntefli við ÍBV í síðustu umferð. Það hefur gefið þeim mikið og fylgdi liðið á eftir með sigri í kvöld.

Fyrsta markið var heldur klaufalegt. Það kom hár bolti inn í teig Leiknis og mætti Viktor Freyr Sigurðsson út til að handsama boltann en hann missti hann frá sér eftir samstuð við Bjarka Aðalsteinsson og fyrir Adam Ægi Pálsson sem átti ekki í vandræðum með að skora.

Bjarki náði ekki að harka af sér samstuðið og fór meiddur af velli í kjölfarið.

Leiknismenn komust í færi á 14. mínútu er Róbert Hauksson fékk boltann vinstra megin í teignum en skot hans fór í þverslá. Undir lok fyrri hálfleiks gat Joey Gibbs komið Keflvíkingum í 2-0 en Viktor Freyr varði frábærlega með löppunum. Dauðafæri hjá heimamönnum.

Annað markið kom á endanum. Patrik Johannesen gerði það á 52. mínútu. Hann reyndi skot sem skoppaði skringilega í átt að Viktori og í netið. Markvörðurinn átti líklega að gera betur þarna en Keflvíkingar kvarta ekki.

Sex mínútum síðar átti Emil Berger skot í slá. Annað slaarskot Leiknis í leiknum.

Heppnin var ekki með Gibbs í þessum leik. Hann kom sér aftur í frábært færi þegar tuttugu mínútur voru eftir. Boltinn barst til hans við vítapunktinn en aftur sá Viktor við honum.

Tíu mínútum síðar gerðu Keflvíkingar út um leikinn. Patrik lagði boltann á Helga Þór Jónsson sem náði til boltans á undan Viktori og skoraði.

Keflvíkingar fagna 3-0 sigri á Leikni og fyrsti sigur liðsins í sumar en þeir eru nú með 4 stig og komnir upp í 9. sæti á meðan Leiknir er í neðsta sæti með 2 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Víkingur R. 4 - 2 Fram
1-0 Helgi Guðjónsson ('10 )
2-0 Erlingur Agnarsson ('21 )
3-0 Erlingur Agnarsson ('26 )
3-1 Hlynur Atli Magnússon ('61 )
4-1 Delphin Tshiembe ('67 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn

Keflavík 3 - 0 Leiknir R.
1-0 Adam Ægir Pálsson ('5 )
2-0 Patrik Johannesen ('52 )
3-0 Helgi Þór Jónsson ('81 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner