Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
banner
   sun 12. maí 2024 11:40
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta vonar að Ten Hag fái tíma til að sanna sig
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: John Walton
Hollenski fótboltaþjálfarinn Erik ten Hag á eitt ár eftir af samningi sínum við Manchester United en margir búast við því að hann verði rekinn eftir tímabilið.

Ten Hag vonast til að halda starfinu sínu og hefur verið duglegur að benda á mikil meiðslavandræði innan herbúða Man Utd sem ástæðu fyrir slæmu gengi liðsins.

Rauðu djöflarnir töpuðu 4-0 gegn Crystal Palace um síðustu helgi og taka þeir á móti toppbaráttuliði Arsenal í eina úrvalsdeildarleik dagsins.

„Ég sé ekki eftir að hafa tekið við þessu starfi. Þetta er risastórt félag og mikil áskorun fyrir hvaða þjálfara sem er. Það er frábært að hafa fengið þetta tækifæri og ég er þakklátur fyrir það," sagði Ten Hag á fréttamannafundi í gær.

Man Utd er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og mun missa af Evrópusæti ef illa gengur í síðustu umferðum deildartímabilsins. Ten Hag vann enska deildabikarinn á sínu fyrsta tímabili hjá United og er búinn að stýra liðinu alla leið í úrslitaleik FA Bikarsins í ár.

Ten Hag telur lærisveina sína hafa verið heppna að hampa deildabikarnum í fyrra og telur að það vanti gæði í leikmannahópinn.

„Það er frábær liðsandi í hópnum og strákarnir eru augljóslega að berjast í nánast hverjum einasta leik. Þeir börðust ekki nógu mikið gegn Palace á mánudaginn og þess vegna var ég svona ósáttur að leikslokum. Þeir hafa barist í öllum öðrum leikjum og það er mikilvægt."

Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, svaraði einnig spurningum á fréttamannafundi.

„Ten Hag er frábær þjálfari og ég dáist að liðunum hans - bæði Ajax og Man Utd. Ég vona að hann fái tíma til að sanna sig vegna þess að ég held að hann sé framúrskarandi þjálfari sem getur gert mjög góða hluti í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég ber mikla virðingu fyrir honum og ég sé hvað hann er að reyna að gera hjá United."

Athugasemdir
banner
banner
banner