Hvar stendur íslenskur fótbolti og fyrir hvað viljum við standa?
Þetta er spurning sem ég hef oft spurt sjálfan mig að. Ég hef hinsvegar aldrei fundið eða fengið svar við þeirri spurningu.
Held að allir séu sammála um það að íslenskur fótbolti er smá “Sveitó“ áhugamennska en það er ákveðin rómantík við það. Hinsvegar eru félög að eyða óhemju miklum peningum í leikmenn og laun þeirra – laun sem að ekki eru réttlætanleg miðað við gæði deildarinnar eða þeirra leikmanna sem fá þessi laun.
Þetta er spurning sem ég hef oft spurt sjálfan mig að. Ég hef hinsvegar aldrei fundið eða fengið svar við þeirri spurningu.
Held að allir séu sammála um það að íslenskur fótbolti er smá “Sveitó“ áhugamennska en það er ákveðin rómantík við það. Hinsvegar eru félög að eyða óhemju miklum peningum í leikmenn og laun þeirra – laun sem að ekki eru réttlætanleg miðað við gæði deildarinnar eða þeirra leikmanna sem fá þessi laun.
Rekstrarumhverfið í kringum hreyfinguna er ekki alltaf auðvelt en það virðist lítil áhrif hafa á félög sem eru að sækja erlenda leikmenn eða leikmenn sem eru að koma aftur heim erlendis frá og borga þeim há laun. Flest félög ná að kreista sig áfram í gegnum vellunnendur og styrktarsamninga en hversu lengi mun það ganga?
Það hafa margoft komið upp dæmi þar sem leikmönnum eru ekki borguð laun. Væri það ásættanlegt að borga ekki starfsmönnum laun á öðrum vinnustöðum?
Hví notum við ekki peningana og fjárfestum í yngri leikmönnum okkar og umgjörðinni í kringum liðin. Það er fjárfesting sem mun margborga sig með tímanum. En í staðinn virðast mörg félög vilja ná í árangur strax og eru tilbúin að eyða peningum í leikmenn sem kannski spila hjá þeim í 2-3 tímabil í stað þess að nota þessa peninga til að skapa sína eigin leikmenn og bæta umgjörðina.
En þar kem ég að deildunum sjálfum og spyr hvað viljum við vera?
Víkingur, Valur og Breiðablik eru i algjörum sérflokki og eru félög sem að við gætum flokkað sem “Stóru þrjú“. Þau félög sem að eru hvað næst því að geta orðið sjálfbær í rekstri. Þau eru einnig öll með fyrrum atvinnumenn sem yfirmenn knattspyrnumála í dag. Það er fjárfesting sem ég væri til í að sjá önnur félög fara í.
KSÍ og ÍTF mættu vera virkari í því að marka stefnu deildarinnar í samstarfi við félögin og setja upp ákveðin viðmið þegar kemur t.d. að mínútu fjölda yngri leikmanna eða hversu margir uppaldir eiga að vera í hóp á leikdegi. Þetta þekkist og hefur borið góðan árangur í deildum sem við berum okkur saman við í Skandinavíu og nokkrum deildum á meginlandi Evrópu. Þetta myndi stuðla að því að verðmiði leikmanna hækki þegar þeir eru seldir erlendis og myndu svona viðmið bæta aðsókn á vellina sem og tengingu milli stuðningsmanna og félaganna.
Nokkur félög virðast vera með skýra stefnu og fagna ég því – en mörg félög virðast ekkert vita hvað þau vilja gera eða standa fyrir. Þau eyða bara ár eftir ár í von um að ná Evrópusæti og að vera með í toppbaráttunni.
Í dag virðumst við ekki vita hvort við viljum vera þróunardeild eða semi-pro deild. Fyrir mér ættum við alltaf að einbeita okkur að því að vera þróunardeild og setja alla okkar orku í það. Þau félög sem eru þá nær því að vera sjálfbær í rekstri geta leyft sér að vera meira semi-pro félög. Félögin verða hinsvegar fyrst og fremst að fara að einbeita sér að því að skapa langtíma plan og markmið í stað þess að reyna lifa hvert ár af fjárhagslega.
Einnig vona ég að sem flest félög átti sig á því hversu hratt kvennaknattspyrna er að stækka á heimsvísu. Við megum ekki gleyma okkur þar. Við verðum að halda áfram að fjárfesta í kvennaknattspyrnunni því á næstu árum mun peningurinn þar margfaldast. Þar höfum við lengi staðið framarlega en við verðum að bæta í. Kvennaknattspyrnan virðist oft gleymast hjá félögum sem að setja nánast allan sinn pening í karlalið sitt í stað þess að betrumbæta alla umgjörð svo bæði lið njóti góðs af. Það er vitað mál að karlalknattspyrna skapar meiri tekjur en kvennaknattspyrna og peningaflæðið þar er töluvert meira en það er kvennamegin. Hinsvegar ef við spilum rétt úr okkar kortum á næstu árum bæði karla og kvennamegin, þá mun það skila árangri og auknum tekjum úr báðum áttum.
Sköpum langtímaplön, sköpum árangur innan sem utan vallar. Íslenskur fótbolti á að standa fyrir tækifæri ungra leikmanna. Íslenskur fótbolti á að standa fyrir samheldni.
Við ættum öll að róa í sömu átt – sem ein heild erum við óstöðvandi.
Pistlahöfundur er fyrrum starfsmaður fótbolti.net, íþróttalýsandi og er útskrifaður með bachelor gráðu í Sport Management.
Athugasemdir