Man Utd hefur engan áhuga á Ramos - Tottenham reynir að selja Bissouma - Bayern ætlar að ræða við Guehi
   fös 12. desember 2025 16:00
Kári Snorrason
Viðtal
Var ekki á leiðinni aftur í þjálfun - „Mér líður best í ákveðnu verkefni“
Óli skrifaði undir tveggja ára samning við Selfyssinga.
Óli skrifaði undir tveggja ára samning við Selfyssinga.
Mynd: Selfoss
„Heiðar Helguson er auðvitað með mér, hann er snillingur. Ég er ótrúlega ánægður með mín viðkynni af honum“
„Heiðar Helguson er auðvitað með mér, hann er snillingur. Ég er ótrúlega ánægður með mín viðkynni af honum“
Mynd: Selfoss
Óli býst við að Jón Daði verði áfram á næsta tímabili.
Óli býst við að Jón Daði verði áfram á næsta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selfoss féll úr Lengjudeildinni í sumar.
Selfoss féll úr Lengjudeildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Óli Stefán Flóventsson var nýverið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Selfoss og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. Óli tekur við liðinu af Bjarna Jóhannssyni sem steig til hliðar í haust eftir að liðið féll úr Lengjudeildinni.

Óli var síðast aðstoðarþjálfari Sindra síðari hluta tímabils, en hann hefur meðal annars stýrt Grindavík og KA í efstu deild. Fótbolti.net ræddi við Óla Stefán um nýja starfið á Selfossi.

Ætlaði ekki aftur í þjálfun
„Þetta byrjar mjög vel, í öllu ferlinu varð ég strax áhugasamur. Ég sagði einhvers staðar að ég væri ekki á leiðinni í þjálfun, og þurfa að keyra á milli frá Höfn eins og var, en þegar ég hitti þá og spjallaði við þá fann ég að þetta verkefni ætti vel við mig og fyrir það sem ég vildi gera,“ segir Óli, sem er búsettur á Höfn í Hornarfirði. Hann flytur á Selfoss í janúar.

„Heiðar Helguson er auðvitað með mér, hann er snillingur. Ég er ótrúlega ánægður með mín viðkynni af honum. Hann sér meira og minna um þetta fyrir áramót. Ég er að koma í langar helgar og er með þeim í þessu. Það er ein slík framundan núna.“

Kjarninn ungir heimamenn
„Þetta er mjög spennandi hópur. Á fyrstu æfingunni voru 24 á lista, 23 af þeim voru Selfyssingar á aldrinum 19-33 ára og einn yfir 26 ára. Ég er búinn að sjá þá og meta þá á æfingum. Það er margt mjög spennandi við þennan hóp, það verður gaman að vinna með þeim á fullu.“

„Þetta var eitt af því sem heillaði mig við starfið. Ég er búinn að finna það út, eftir minn feril, að mér líður best í ákveðnu verkefni - að reyna byggja upp á einhverri stefnu. Þeir hafa markvisst verið að stækka þennan kjarna, þetta er auðvitað orðið svo stórt svæði og yngri flokka starfið verið gott. Þetta er það sem þeir vilja fara í, búa til lið í kringum kjarnann. Ekki eins og gerist oft, sem er öfugt: Það er sóttur liðsstyrkur til að ná fyrirfram skilgreindum árangri.

Það sem við viljum gera í rauninni gera er að koma okkur upp og staðsetja okkur í 1. deildinni, þetta hefur verið svolítið upp og niður síðustu ár. Þetta gerum við með að gera kjarnann tilbúinn í fyrstu deild. Þá erum við líklegir til að vera þar í lengri tíma og mögulegt að byggja ofan á það.“


Vonast til að halda sem flestum
Sesar Örn Harðarson yfirgaf Selfoss eftir tímabil og gekk til liðs við ÍBV. Áttu von á því að fleiri séu á förum frá félaginu?

„Nei, svo sem ekki. Það eru einhverjir sem eru að renna út og við erum í viðræðum við einhverja. Hvort að það gangi upp veit maður ekki, fyrr en það er komið staðfest í sviga. Vonandi næ ég að halda sem flestum. Þá er ég kominn líka með skýra mynd hvað vantar í hópinn.“

„Ég tel mig vita hvernig týpu okkur vantar. En fyrst og fremst vil ég meta hópinn eins og hann er og hvaða möguleika ég hef í kringum þá sem eru í hópnum nú þegar áður en ég fer að tína til og reyna styrkja og bæta í,“ sagði Óli.

Líkt og Fótbolti.net greindi frá fyrr í dag býst Óli við að halda Jóni Daða Böðvarssyni á næsta tímabili.

„Ég á ekki von á neinu öðru. Auðvitað þegar lið falla er eðlilegt að menn staldri við og hugsi aðeins, annað væri skrýtið. Ég veit ekki betur en að hann sé til í slaginn og vilji hjálpa félaginu sínu, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur.“

Athugasemdir
banner