fim 13. janúar 2022 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tveir ÍR-ingar snúa aftur heim (Staðfest)
Jón Gísli Ström.
Jón Gísli Ström.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍR hefur krækt í tvo leikmenn sem þekkja báðir vel til hjá félaginu. Þetta eru þeir Jón Gísli Ström og Már Viðarsson.

„Strákana þekkjum við ÍR-ingar svo sannarlega eftir farsælan feril í Mjóddinni og það er okkur mikið ánægjuefni að þeir hafi tekið ákvörðun að snúa aftur á leikvöllinn með merkið okkar fallega á brjóstinu," segir í tilkynningu ÍR-inga.

Már á að baki 123 leiki í deild og bikar fyrir ÍR og skorað í þeim 12 mörk. Hann lék síðast með ÍR árið 2020, fastamaður í liðinu sem hafsent eða djúpur miðjumaður. Hann spilaði með Létti í 4. deildinni í fyrra.

Jón Gísli eða "Strömvélin" hefur leikið 177 leiki fyrir ÍR í deild og bikar og skorað í þeim 73 mörk. Síðast spilaði hann með ÍR 2018. Hans besta tímabil var 2016 þegar hann skoraði 22 mörk í 21 leik í 2. deildinni. Hann spilaði einnig með Létti í fyrra.

„Það er ávallt fyrsti kostur þjálfara að spila uppöldum leikmönnum að því gefnu að þeir séu nógu góðir. Það er engin spurning í mínum huga um að Már og Jón Gísli styrkja liðið verulega. Það er því alveg sérstaklega ánægjulegt að þeir hafi ákveðið að taka slaginn með okkur. Hópurinn er nú að taka á sig nokkuð endanlega mynd sem við þjálfararnir eru mjög þakklátir fyrir en að því sögðu á ég von á tveimur mjög sterkum leikmönnum á allra næstu dögum. Við þurfum að leggja hart að okkur á æfingasvæðinu á næstu mánuðum og stilla saman strengina sem lið en ekki síður að mynda sterka liðsheild utan vallar. Mannskapurinn til að gera vel, er til staðar getulega séð. En það er ekki nóg við verðum að njóta þess að vinna saman að settu marki," segir Arnar Hallsson, þjálfari ÍR.


Athugasemdir
banner
banner
banner