þri 13. apríl 2021 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Tímabilið búið hjá Pedro Neto - Neves með veiruna
Pedro Neto, framherji Wolves á Englandi, verður ekki með liðinu næstu sex mánuðina vegna hnémeiðsla en félagið staðfesti þessar fregnir í gærkvöldi. Ruben Neves, miðjumaður liðsins, er þá með kórónaveiruna og verður ekki með liðinu í næstu leikjum.

Neto er 21 árs gamall en hann hefur skorað fimm mörk og lagt upp önnur fimm í 35 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili.

Hann meiddist í fyrri hálfleik í 1-0 sigrinum á Fulham á dögunum en nú er ljóst að hann þarf að fara undir hnífinn.

Neto verður ekki meira með Wolves á þessari leiktíð og missir þá að öllum líkindum að byrjun næsta tímabils.

Landi hans, Ruben Neves, er þá með kórónaveiruna, og verður því líklega ekki með gegn Sheffield United næstu helgi og gæti einnig misst af leiknum gegn Burnley þann 25. apríl.
Athugasemdir
banner
banner
banner