Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 13. maí 2019 20:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aron kveður Cardiff eftir átta ár: Sætt að enda þetta svona
Aron lék kveðjuleik sinn fyrir Cardiff í gær.
Aron lék kveðjuleik sinn fyrir Cardiff í gær.
Mynd: Getty Images
Aron hefur verið í átta ár hjá félaginu.
Aron hefur verið í átta ár hjá félaginu.
Mynd: Getty Images
Aron tók víkingaklappið eftir leikinn í gær. Hann segir að það hafi ekki verið planið að gera það.
Aron tók víkingaklappið eftir leikinn í gær. Hann segir að það hafi ekki verið planið að gera það.
Mynd: Getty Images
„Þessi tími er búinn að vera upp og niður. Margt búið að breytast og margir leikmenn sem hafa komið og farið. Maður hefur lært ýmislegt
„Þessi tími er búinn að vera upp og niður. Margt búið að breytast og margir leikmenn sem hafa komið og farið. Maður hefur lært ýmislegt
Mynd: Getty Images
Aron og Heimir munu vinna aftur saman.
Aron og Heimir munu vinna aftur saman.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég lít jákvæðum augum á þessi skipti að þau nýtist mér og landsliðinu enn meira
„Ég lít jákvæðum augum á þessi skipti að þau nýtist mér og landsliðinu enn meira
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Gærdagurinn var góður í ljósi úrslitana. Það er skemmtilegt að enda ferilinn í Cardiff á sigri og það skemmir ekki að enda hann á Old Trafford. Það var sætt að enda þetta svona," segir Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, í samtali við Fótbolta.net.

Hann lék í gær sinn kveðjuleik fyrir Cardiff eftir átta ára veru hjá félaginu. Hann fékk heiðursskiptingu í 2-0 sigri á Manchester United og að leik loknum tók hann víkingaklappið með stuðningsmönnum.

Sjá einnig:
Aron Einar stjórnaði víkingaklappi á Old Trafford

Hann segir að það hafi ekki verið planið að taka víkingaklappið á Old Trafford í gær.

„Það var ekki planið, mér var ýtt í það. Ég var búinn að segja það að ég ætlaði ekki að gera það með neinum öðrum en íslensku stuðningsmönnunum. En mér var ýtt í það og það var ekkert annað í boði. Þetta kryddar þetta aðeins og þeir áttu þetta alveg skilið að fá eitt víkingaklapp þó það hafi verið rólegra en vanalega."

Cardiff á að vera í efstu deild
Cardiff komst upp í ensku úrvalsdeildina fyrir leiktíðina sem var að ljúka og bætti ekki mikið við sig fyrir tímabilið, að minnsta kosti ekki í samanburði við hin liðin sem fóru upp - Wolves og Fulham. Cardiff barðist samt til síðasta blóðdropa og endaði aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti.

Það er frábær árangur fyrir Cardiff sem lenti í miklu áfalli í janúar. Félagið hafði þá fjárfest í sóknarmanninum Emiliano Sala, en hann týndi lífi í flugslysi áður en hann gat mætt á sína fyrstu æfingu hjá félaginu.

„Þetta var upp og niður tímabil. Við byrjuðum illa en náðum krafti um mitt tímabil og úrslitin urðu betri. Það voru ýmis atriði sem féllu ekki með okkur og aðrir erfiðir tímar."

„En við sem klúbbur komumst nokkuð vel frá tímabilinu sem slíku. Okkur var spáð síðasta sætinu af öllum miðlum. Það er auðvitað erfitt að falla en það þurfa einhver lið að falla. Það var ljóst gegn Crystal Palace að við gátum ekki haldið okkur uppi og það er auðvitað súrt."

Aron var einnig hluti af liði Cardiff sem komst upp 2013 og féll 2014. Hann segir að félagið sé á miklu betri stað núna.

„Tímabilið sjálft finnst mér vera betra en þegar við vorum síðast í úrvalsdeildinni. Við vorum betur samstilltir og félagið á mikið betri stað. Mér fannst við læra af síðasta tímabili í úrvalsdeild og vonandi að liðið nái að halda sér lengur þegar það kemst næst upp. Þessi klúbbur á skilið að vera í deild þeirra bestu."

„Það verður vinna að komast aftur upp úr Championship-deildinni. Það er hark, ég þekki það."

Erfitt að kveðja en að sama skapi spenntur
Aron Einar er þrítugur. Hann var nýorðinn 22 ára þegar hann skrifaði undir sinn fyrsta samning við Cardiff þann 8. júlí 2011. Núna átta árum seinna er hann að yfirgefa félagið og mun hann ganga í raðir Al Arabi í Katar í sumar. Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari, stýrir Al Arabi.

Hann segir það auðvitað erfitt að yfirgefa félagið eftir svona langan tíma en það séu spennandi áskoranir framundan.

„Þessi tími er búinn að vera upp og niður. Margt búið að breytast og margir leikmenn sem hafa komið og farið. Maður hefur lært ýmislegt," segir Aron.

„Það er alltaf erfitt að kveðja, sérstaklega þegar maður er búinn að vera svona lengi á einum stað. Það er ekki mikið um það í dag að leikmenn, sérstaklega útlendingar, séu svona lengi á sama staðnum. Það er auðvitað erfitt að kveðja en ég er að sama skapi spenntur fyrir nýjum áskorunum og nýju umhverfi."

Var hann að búast við því fyrir átta árum að vera svona lengi hjá Cardiff?

„Já og nei. Fyrst þegar ég kom leið mér vel. Ég var kominn í félag þar sem ég þurfti að vinna mig upp í úrvalsdeild. Það tókst á öðru árinu. Svo kom það ár og tveimur árum eftir, í kringum EM-árið, það var niðursveifla fannst mér, hjá mér og klúbbnum. Þá fór ég að hugsa mér til hreyfinga, en sem betur fer vorum við áfram hérna og fengum að taka þátt í þessu ævintýri sem hefur átt sér stað síðust tvö árin."

Hvað er það sem stendur upp úr á þessum síðustu átta árum í Wales?

„Það er náttúrulega úrslitaleikurinn á Wembley í deildabikarnum (gegn Liverpool - tapaðist í vítaspyrnukeppni) og það að komast tvisvar upp í ensku úrvalsdeildina."

„Það var mikilvægt fyrir félagið og fyrir mig sjálfan að komast upp. Ég hafði alltaf stefnt á úrvalsdeildina og ætlaði að gera það í þrepum - það heppnaðist. Að gera það með Cardiff var sætt."

Næsti áfangastaður: Katar
Eins og áður kemur fram þá er Aron að ganga í raðir Al Arabi í Katar. Hann er spenntur fyrir því að vinna aftur með Heimi Hallgrímssyni, fyrrum landsliðsþjálfara.

„Fjölskyldan er hrikalega spennt að fara til Katar og ég spenntur að vinna aftur með Heimi."

„Við erum búin að ræða mikið við Heimi og Írisi, konuna hans. Þau hafa hjálpað okkur að koma hlutunum af stað. Ég held ég flytji um miðjan júlí og svo komi fjölskyldan í september þegar tímabilið byrjar, eftir landsleikina í september."

Al Arabi er frá Doha og spilar heimaleiki sína á velli sem tekur þrettán þúsund áhorfendur í sæti. Liðið hefur sjö sinnum orðið meistari í Katar, síðast árið 1997. Á meðal fyrrum þjálfara liðsins eru Gianfranco Zola og Dan Petrescu fyrrum leikmenn Chelsea.

Segja má að Al Arabi sé fornfrægt félag en liðið hefur ekki náð að landa titlum undanfarin ár. Á síðustu leiktíð endaði Al Arabi í sjötta sæti, en nýtt tímabil hefst seint í sumar.

Smelltu hér til að hlusta á Heimi Hallgrímsson í Miðjunni á Fótbolta.net.

Aron er búinn að kynna sér deildina aðeins í Katar.

„Vonandi náum við að gera einhverja hluti þó það verði erfitt. Það eru tvö, þrjú lið sem hafa einokað deildina upp á síðkastið. Það er í okkar höndum að breyta því. Vonandi náum við að stríða þeim eitthvað og enda hærra en sjötta sæti á næsta tímabili," segir Aron.

Það er mikill munur á Katar og Englandi, en fótboltinn í Katar er á uppleið. Heimsmeistaramótið verður haldið í landinu 2022.

„Þetta verður öðruvísi menning og öðruvísi menning í kringum fótboltann þar úti, en maður sér að það er mikill áhugi á fótbolta í Katar - sérstaklega í ljósi þess að HM fer fram í landinu 2022. Það er verið að spýta í lófana þegar kemur að fótbolta í landinu og mér finnst gaman að taka þátt í því."

„Ég er klár í annað verkefni og öðruvísi verkefni. Vonandi get ég hjálpað við að byggja upp þetta félag."

Leit ekkert annað - Hjálpar landsliðinu
Samningur Arons við Cardiff rennur út í sumar og mátti hann byrja að ræða við önnur félög í kringum áramótin síðustu. Hann ákvað fljótt að fara til Katar.

„Ég var búinn að ákveða þetta snemma. Ég leit ekkert annað. Mig langaði að vinna aftur með Heimi og mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Þetta var það sem var mest spennandi."

Aron og Heimir unnu saman í sjö ár hjá íslenska landsliðinu. Á þeim tíma komst íslenska landsliðið á tvö stórmót og náði frábærum árangri.

„Hann er með sínar hugmyndir fyrir félagið sem ég er spenntur fyrir. Að miðla minni reynslu til félagsins og þeirra leikmanna sem eru þar fyrir er spennandi fyrir sjálfan mig. Það er ætlunin að betrumbæta liðið og leikmennina í kringum mig. Vonandi nær maður að spila sinn bolta og spila vel í Katar."

Aron er auðvitað einn mikilvægasti leikmaður íslenska landsliðsins. Hann telur að þessi félagaskipti muni hjálpa sér þegar kemur að landsliðinu.

„Það er 100%. Upp á það að ég sé ferskur og ég get æft meira, það er ekki leikur eftir leik, ekki eins mikil keyrsla. Tempóið er kannski öðruvísi en því sem ég er vanur. Þá er þetta bara spurning um að ég haldi mínu tempói og komi því í gegn hjá liðinu. Þá hef ég engar áhyggjur."

„Ég lít jákvæðum augum á þessi skipti að þau nýtist mér og landsliðinu enn meira," sagði Aron í samtali við Fótbolta.net.

Hér að neðan má sjá kveðju sem Aron setti á Instagram í gær.


Athugasemdir
banner
banner
banner