Sky Sports greinir frá því að bakvörðurinn þaulreyndi Kyle Walker vilji frekar skipta til félags sem leikur í Meistaradeild Evrópu heldur en til Sádi-Arabíu.
Walker hefur ekki verið í hóp Manchester City síðustu tvo leiki vegna þess að hann hefur beðið félagið um að vera seldur.
Walker, sem verður 35 ára í sumar, er með ákveðin markmið sem hann vill ná á ferlinum og telur að besta leiðin til að ná þeim markmiðum sé að spila áfram í Evrópu.
Það er mjög mikil barátta um hægri bakvarðarstöðuna í enska landsliðinu og er Walker smeykur um að missa sæti sitt í landsliðinu vegna lítils spiltíma hjá Man City. Eitt af hans helstu markmiðum er að verða annar hörundsdökki maðurinn eftir Ashley Cole til að spila 100 landsleiki fyrir England, en hann er með 93 landsleiki að baki sem stendur.
Hann býst við því að geta spilað í hæsta gæðaflokki í tvö eða þrjú ár til viðbótar og vonast til að Milan eða annað evrópskt félag nái samkomulagi við City um kaupverð.
Mörg félög frá Sádi-Arabíu hafa reynt að krækja í Walker en honum finnst sú deild ekki aðlaðandi.
Athugasemdir