Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fim 14. mars 2013 15:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Uppbyggingarstefna knattspyrnufélaga
Birgir Óli Einarsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Pistlahöfundur.
Pistlahöfundur.
Mynd: Aðsend mynd
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Knattspyrnuskóli Arsenal
Mynd: Getty Images
Mikilvægi uppbyggingarstefnu innan knattspyrnufélaga er misjafn gaumur gefinn. Telja má að gott skipulag á þessu sviði aðgreini góð félög frá öðrum. Ungir leikmenn þurfa að finna hjá sínu félagi að þeir séu mikilvægir og að þjálfun miði að uppbyggingu hugarfarsins ekki síður en líkamlegu atgervi.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er framkoma félags í garð ungs leikmanns. Hann hefur ávallt verið talinn efnilegur leikmaður með framtíðina fyrir sér í knattspyrnu enda með landsleiki að baki og Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum.

Honum varð það á að skipta um félag á síðasta ári sínu í 2. flokki og ganga til liðs við annað félag til þess að fá nýja áskorun enda hafði hann þá unnið allt sem hægt var að vinna í yngri flokkum. Hann sá það ekki fyrir að hjá sínu nýja félagi var engin uppbyggingastefna í gangi fyrir yngri leikmenn og var settur til hliðar og fékk engin tækifæri til þess að þroskast frekar sem leikmaður. Fljótlega eftir að hann hóf að æfa með meistaraflokki hjá sínu nýja félagi var honum tjáð af þjálfara meistaraflokks að til stæði að gera við hann samning.

Þjálfarinn tjáði honum að hann hefði mikla hæfileika sem hann vildi vinna með og móta sjálfur. Þessi samtöl fóru fram í desember mánuði árið 2011 en þrátt fyrir það var ekki gerður við hann samningur fyrr en á síðasta degi fyrir Íslandsmótið sumarið 2012 og átti sá samningur að gilda til ársins 2015. Síðar kom í ljós að félagið stóð ekki við ákvæði samningsins eins og gert er ráð fyrir í reglugerðum KSÍ og missti félagið þar af leiðandi allan kröfurétt til leikmannsins á grundvelli hans.

Það sem verra var þá fékk þessi ungi leikmaður ekki að spila eina einustu sekúndu allt sumarið og var ónotaður varamaður. Eins og nærri má geta varð þetta hvorki til þess að þroska unga manninn, bæta hann sem leikmann né efla hjá honum hugarfarið.

Þessi ungi leikmaður var samt sem áður staðráðinn í því að sanna sig hjá sínu nýja félagi og mætti til æfinga um haustið 2012. Hann lagði sig allan fram um að mæta sem fyrr á allar æfingar um haustið og tók þar að auki sjálfur þátt í aukaæfingum hjá einkaþjálfara sem hann greiddi úr eigin vasa til þess að vera í sínu besta formi fyrir næsta tímabil. Þar sem ný stjórn var þá tekin við í knattspyrnufélaginu var henni tilkynnt um það að samningur félagsins við leikmanninn væri í uppnámi vegna vanefnda félagsins. Hin nýja stjórn brást strax við þessum upplýsingum og gat þess að hún hafi ekki haft vitneskju um það.

Leikmaðurinn var kallaður á fund með stjórnarmanni knattspyrnudeildarinnar og þjálfara í desember 2012. Á fundinum var leikmanninum tjáð að hann væri framtíðarleikmaður félagsins og honum boðinn nýr samningur með betri kjörum sem hann og þáði. Honum var tjáð á fundinum að hann þyrfti augljóslega að spila meira og að félagið myndi hugsanlega lána hann til annars félags í því skyni. Fram kom hjá þjálfara að leikmaðurinn hefði æft sérstaklega vel undanfarið haust og væri í mjög góðu formi. Stjórnarmaður og þjálfari hvöttu hann til að hugsa málið yfir helgi og eftir það væri hægt að ganga frá nýjum samningi. Þjálfarinn tók síðan fram að leikmaðurinn átti að mæta til æfinga eftir jólaleyfi og að hann og leikmaðurinn myndu síðan ákveða það í sameiningu þegar liði fram á vorið hvort og þá til hvaða félags hann yrði lánaður næsta sumar.

Það er skemmst frá því að segja að enginn nýr samningur var við hann gerður þrátt fyrir ítrekaðar óskir frá leikmanninum um að ganga frá þeim málum. Eftir að erlendir leikmenn fóru að berast til félagsins nú í mars þá kom þjálfarinn að máli við hinn unga leikmann og tjáði honum að hann hefði ekki meiri not fyrir hann og að ekki yrði staðið við að gera við hann nýjan samning eins og honum var lofað.

Þessi framkoma félagsins hefur slökkt á öllum áhuga hjá þessum unga leikmanni á knattspyrnu og sáð efasemdum í huga hans um það hvort það taki því að vera að standa í þessu öllu lengur. Það er ekki lítill tími, vinna og fyrirhöfn sem þessir ungu leikmenn eru að leggja á sig til þess að ná árangri en umræddur leikmaður hafði frá unga aldri haft þau markmið að leggja fyrir sig knattspyrnu og fara í atvinnumennsku.

Á þeim tíma þegar þjálfarinn tilkynnti leikmanninum að fara annað höfðu flest félög þegar mannað sinn leikmannahóp fyrir næsta sumar. Þau eru því ekki að huga að því að bæta við sig leikmönnum á þessum tíma og því hefur hann ekki komist að hjá öðru félagi sem hann hafði áhuga á. Hann hefur því ákveðið að hætta æfa og leika knattspyrnu og snúa sér að einhverju öðru.

Það er eftirtektarvert hjá félögum sem ná árangri til langs tíma að þau leggja mikla áherslu á að byggja upp hugarfar sigurvegara hjá ungum leikmönnum ekki síður en að leggja rækt við líkamlegt form þeirra. Nærtækt er að líta til Breiðabliks í þessu sambandi þar sem skilningur er á því að rækta vel unglingastarfið innan félagsins sem skilar sér upp í meistaraflokk þegar fram líða stundir. Félagið leggur áherslu á að ná fram því besta hjá ungum leikmönnum enda þekkt fyrir það hvað margir af leikmönnum þess gerast atvinnumenn hjá erlendum félögum.

Annað vel þekkt dæmi um skilning á mikilvægi uppbyggingarstarfs innan knattspyrnufélaga er stórveldið Barcelona sem leggur gríðarlega áherslu á að móta framtíðarleikmenn frá unga aldri.

Þau félög sem vilja kaupa sér skammtíma árangur eins og virðist vera stefna þess félags sem hér um ræðir munu aldrei ná fótfestu og stöðugleika í efstu deild hér á landi nema það breyti þjálfunaraðferðum sínum og áherslum. Þjálfunin þarf að ná til þess að efla hugarfar leikmanna og þroska það ekki síður en líkamlegar æfingar. Félög og þjálfarar knattspyrnuliða þurfa að hvetja unga leikmenn og gefa þeim von og tækifæri til þess að bæta sig og efla.

Ungir leikmenn líta upp til þjálfara sinna og reiða sig á leiðsögn þeirra og því þurfa þjálfarar að standa við áætlanir sínar og láta ekki skammtíma sjónarmið ráða för. Það er nefnilega þannig að ungir leikmenn gera markmið til langs tíma en það má ekki vera þannig að þjálfarar og þeir sem ráða í knattspyrnufélögum skipuleggi sig ekki með sama hætti.

Birgir Óli Einarsson
Athugasemdir
banner
banner