
„Þetta hefur verið að byggjast upp hægt og rólega. Ég get alveg vottað fyrir það að það er smá spenna í hópnum," sagði Rúrik Gíslason leikmaður Sandhausen og íslenska landsliðsins.
Íslenskaliðið æfir í dag í Gelendzhik fyrir hádegi og flýgur síðan yfir til Moskvu seinni partinn. Liðið mætir síðan Argentínu í höfuðborginni á laugardaginn klukkan 13:00.
Rúrik segir að liðið sé vel undirbúið fyrir leikinn á laugardaginn.
„Ég veit nú ekki töluna á því hversu oft við höfum fundað um þá, en það er nokkrum sinnum og síðasti fundur var í gærkvöldi þar sem við fórum yfir sóknar- og varnarleik. Ég held að við getum ekki verið miklu meira undirbúnir," sagði Rúrik sem vonast til að fá mínútur á laugardaginn.
„Það hefur ekkert gefið til kynna í þeim efnum. Eins og áður held ég að byrjunarliðið verði rétta byrjunarliðið. Það eru held ég allir í hópnum með mikilvæg hlutverk, hvort sem það er inn á vellinum eða utan vallar. Ég held að það sé mikilvægt að við séum saman í þessu en auðvitað langar öllum að spila," sagði Rúrik sem vildi lítið gefa upp hvort hann væri bjartsýnn á það að byrja leikinn á laugardaginn.
„Ég er alltaf klár ef kallið kemur. Heimir hefur alltaf einhvern vegin valið rétta byrjunarliðið og það verður líka þannig núna."
Viðtalið í heild sinni við Rúrik má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir