þri 14. júní 2022 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Viðburðaríkir dagar hjá Herði - „Annars verð ég bara atvinnulaus og kem frítt í Fram"
Hörður Björgvin Magnússon
Hörður Björgvin Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður tók við fyrirliðabandinu af Birki
Hörður tók við fyrirliðabandinu af Birki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður Björgvin aftur í Fram? Það væri eitthvað.
Hörður Björgvin aftur í Fram? Það væri eitthvað.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Síðustu dagar hjá íslenska landsliðsmanninum, Herði Björgvini Magnússyni, hafa verið viðburðaríkir svo vægt sér til orða tekið, en hann eignaðist sitt annað barn á fimmtudag og fékk þá fyrirliðabandið í fyrsta sinn með landsliðinu.

Hörður spilaði alla þrjá leiki Íslands í Þjóðadeildinni og skilaði sínu ágætlega.

Hann tók við fyrirliðabandinu í fyrsta sinn í útileiknum gegn Ísrael og fékk það svo aftur þegar Birkir Bjarnason fór af velli gegn Albaníu en hann fyllist stolti að geta leitt leikmennina áfram.

„Hún er alltaf rosagóð. Maður fyllist stolti, rosalega skemmtilegt og gaman að leiða hópinn. Þetta er ungt lið og líður eins og ég sé einn af þeim og það er bara þannig. Þetta eru strákar sem eru að standa sig hjá sínum félagsliðum, framtíðin er björt og ég er einn af þeim elstu núna. Það geta allir tekið við fyrirliðabandinu en ég er stoltur að fá það," sagði Hörður við Fótbolta.net.

Fæddi barnið rétt eftir sigurleikinn gegn San Marínó

Hörður hafði fengið leyfi frá KSÍ til að vera eftir heima fyrir leikinn gegn San Marínó þar sem hann átti von á barni með kærustu sinni en þau eignuðust aðra dóttur eftir 1-0 sigurinn á San Marínó og í raun nokkrum mínútum eftir að leikurinn var flautaður af.

„Ég er þakklátur kærustu minni. Hún hefur leyft mér að fara á æfingar og tíminn hefur verið þannig að það er ró á henni þegar æfingar eru. Þannig ég hef getað farið á æfingar og sinnt henni strax eftir æfingu. Ég vil þakka KSÍ, Arnari og þjálfarateyminu heilt yfir að hafa gefið mér svindldaga til að vera heima með fjölskyldunni og sofa heima. Skemmtilegur tími og gott að fá barnið í heiminn og maður þarf að sinna fjölskyldunni vel eins og staðan er í dag. Það kemur nýr kafli í mitt líf, þarf að finna mér nýtt lið og fer yfir það í símanum að hafna og taka við boðum," sagði hann ennfremur.

Ekkert ákveðið með framtíðina

Hörður hefur verið á mála hjá CSKA Moskvu í Rússlandi síðustu fjögur ár en hann verður formlega laus allra mála um mánaðarmótin.

Það er mikill áhugi á Herði en það ferli ætti að skýrast á næstu vikum. Hörður ákvað að slá á létta strengi en hann sagði að ef ekkert kæmi upp þá myndi hann bara verða atvinnulaus og koma frítt í Fram.

„Það fyndna er að ég veit rosalega lítið, annars væri eitthvað komið í fjölmiðla eins og staðan er í dag. Ég held að það komi allt upp núna, annars verð ég bara atvinnulaus og kem frítt í Fram. Neinei, það koma tlboð á næstu dögum og það skýrist þá."

Herði leist vel á að spila í miðverði í þessum glugga en hann hefur spilað þá stöðu með CSKA og öðrum félagsliðum sem hann hefur spilað fyrir. Hann kann best við sig þar en spilar bara þar sem honum er sagt að spila.

„Ég er hafsent sem getur spilað vinstri bakvörð. Ég er ánægður að fá tækifæri í hafsentinum og ég held ég hafi skilað því svona ágætlega frá mér og sýnt fram á að ég vil spila þessa stöðu. Það skiptir mig engu máli, ef ég fæ að spila þá er ég sáttur. Ég held að allir strákarnir séu þannig, leikur er leikur og við viljum spila sem flesta leiki," sagði hann í lokin.
Hörður Björgvin: Aldrei allur inni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner