Ruben Amorim til Man City? - Alphonso Davies á óskalista Man Utd - Verðmiðinn á Antony - Barcelona á eftir tveimur leikmönnum Chelsea
   mán 14. október 2024 20:50
Brynjar Ingi Erluson
Súrt tap gegn Tyrkjum
Icelandair
Ísland tapaði fyrir Tyrklandi
Ísland tapaði fyrir Tyrklandi
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ísland 2 - 4 Tyrkland
1-0 Orri Steinn Óskarsson ('3 )
1-0 Hakan Calhanoglu ('54 , misnotað víti)
1-1 Irfan Can Kahveci ('63 )
1-2 Hakan Calhanoglu ('67 , víti)
2-2 Andri Lucas Guðjohnsen ('83 )
2-3 Arda Guler ('88 )
2-4 Kerem Akturkoglu ('95 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið tapaði fyrir Tyrklandi, 4-2, í B-deild Þjóðadeildar Evrópu á Laugardalsvelli í kvöld í gríðarlega fjörugum leik þar sem umdeild dómgæsla stal sviðsljósinu.

Ekki var hægt að biðja um betri byrjun. Strax á 3. mínútu skoraði Orri Steinn Óskarsson frábært mark fyrir Ísland.

Mikael Neville Anderson sendi boltann á Orra, sem keyrði frá miðsvæðinu og inn í vítateiginn áður en hann hamraði boltanum efst í nærhornið.

Tyrkir reyndu og reyndu að finna opnanir en það var bara engar opnanir að finna í þéttum varnarleik Íslands. Flestar tilraunir þeirra komu fyrir utan teig og var Hákon Rafn Valdimarsson aldrei í vandræðum með þær tilraunir.

Logi Tómasson átti flott skot fyrir utan teig á 36. mínútu og var Ugurcan Cakir, markvörður Tyrkja, í stökustu vandræðum með boltann. Daníel Leó Grétarsson mætti í frákastið en Cakir náði rétt að koma fæti í boltann.

Frábær frammistaða í fyrri hálfleik en það lifnaði heldur betur yfir leiknum í þeim síðari.

Tyrkir mættu ákveðnir og eftir nokkrar tilraunir var vítaspyrna dæmd er Sverrir Ingi Ingason handlék boltann í teignum eftir skot Arda Güler.

Mikið var rætt og ritað um aðstæðurnar. Það kom vel til greina að fresta leiknum um einn dag vegna frosts í jörðu á Laugardalsvelli en eftir frekari skoðun dómarateymisins í dag var ákveðið að spila.

Völlurinn kom Íslandi til bjargar í vítaspyrnunni sem Tyrkir fengu. Hakan Calhanoglu fór á punktinn, rann til og sparkaði tvisvar í boltann sem hafnaði í netinu. Markið var dæmt af þar sem leikmaður má ekki snerta boltann tvisvar þegar hann tekur vítið og óbein aukaspyrna því dæmd.

Tyrkir héldu áfram að sækja og jöfnuðu metin á 63. mínútu með laglegu skoti Irfan Can Kahveci fyrir utan teig.

Fjórum mínútum síðar fengu gestirnir aðra vítaspyrnu er Andri Lucas Guðjohnsen fékk boltann í hönd sína eftir skalla Merih Demiral eftir hornspyrnu. Dómurinn þótti fremur grimmur, en í annað sinn tók pólski dómarinn sér aðeins nokkrar sekúndur til að skoða VAR-skjáinn og dæmdi víti.

Calhanoglu skoraði löglegt vítaspyrnumark í þetta sinn og náði að snúa taflinu við fyrir Tyrki.

Mjög undarleg dómgæsla átti sér stað á 76. mínútu. Eftir vandræðagang í teig Tyrkja átti Orri Steinn Óskarsson skot sem Merih Demiral, sem var á gulu spjaldi, varði með höndunum á marklínu.

VAR taldi hann ekki brotlegan og áfram hélt leikurinn þó endursýningar sýndu það að Demiral hafi augljóslega handleikið boltann.

Réttlætinu var fullnægt nokkrum mínútum síðar er Andri Lucas Guðjohnsen jafnaði metin með skalla eftir sendingu Valgeirs Lunddal Friðrikssonar.

Íslenska liðið komið aftur inn í leikinn en eftir slæm mistök Hákonar á 88. mínútu kom Arda Güler Tyrkjum aftur í forystu. Hákon var með boltann í eigin teig en Tyrkjunum tókst að stela boltanum og var það Güler sem skoraði.

Kerem Akturkoglu gulltryggði sigur gestanna með stórkostlegu marki í uppbótartíma. Hann skrúfaði boltanum hátt upp í loft og efst upp í samskeytin.

Lokatölur á Laugardalsvelli, 4-2, Tyrkjum í vil. Ísland er í 3. sæti riðilsins með 4 stig en Tyrkir á toppnum með 10 stig. Wales er 2. sæti með 8 stig.
Athugasemdir
banner
banner