Ítalski landsliðsmarkvörðurinn Michele Di Gregorio hafnaði því að ganga í raðir Liverpool í sumar en þetta segir Carlo Alberto Belloni, umboðsmaður markvarðarins í viðtali við TuttoSport.
Di Gregorio gekk í raðir Juventus frá Monza eftir síðustu leiktíð en áhuginn á honum var mikill.
Á dögunum sýndi Di Gregorio sínar bestu hliðar er Juventus vann 2-0 sigur á Englandsmeisturum Manchester City í Meistaradeildinni er hann varði tvö frábær færi frá Erling Braut Haaland og Ilkay Gündogan.
„Stuðningsmenn Manchester City eiga eftir að muna eftir vörslum hans í langan tíma,“ sagði Belloni í viðtalinu.
Liverpool hafði áhuga á að fá Di Gregorio í sumar en Belloni segir að hann og leikmaðurinn hafi hafnað því tilboði og ákveðið að semja við Juventus.
„Við höfnuðum Liverpool í sumar og völdum verkefnið hjá Juventus í staðinn. Hann leggur hart að sér og bætir sig með hverjum deginum.“
„Hann er búinn að setja upp rækt heima hjá sér þannig hann getur æft þegar hann er í fríi. Di Gregorio er með ótrúlegt hugarfar og er það þrá hans að vera hluti af Juventus liði sem endurskrifar söguna og nær í mikilvæga titla,“ sagði umboðsmaðurinn.
Liverpool endaði á því að kaupa georgíska landsliðsmarkvörðinn Giorgio Mamardashvili frá Valencia en hann mun formlega ganga í raðir félagsins eftir þetta tímabil.
Athugasemdir