Thomas Frank þjálfari Brentford var kátur eftir glæsilega endurkomu hans manna á heimavelli gegn Englandsmeisturum Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
Liðin áttust við í opnum leik sem bauð upp á mikið af færum og gífurlega skemmtun, en Man City komst í tveggja marka forystu með mörkum frá Phil Foden í síðari hálfleik.
Brentford tókst að jafna með tveimur verðskulduðum mörkum á lokakaflanum og urðu lokatölur 2-2.
„Ég held að þetta sé í fyrsta sinn í fjögur ár sem okkur tekst að eiga jafnan og stöðugan leik gegn einu af þremur toppliðum deildarinnar. Í þau fjögur ár sem við höfum verið í deildinni höfum við aldrei áður átt svona jafnan leik gegn Man City, Arsenal eða Liverpool," sagði Frank brosandi eftir lokaflautið. „Ég er ótrúlega stoltur af strákunum fyrir þetta, hugrekkið og hugarfarið sem þarf til að spila svona vel gegn svona sterkum andstæðingum er aðdáunarvert, sérstaklega eftir að við lendum tveimur mörkum undir.
„Ég hefði verið sáttur með þessa frammistöðu þó við hefðum tapað leiknum en það er frábært að fá verðskuldað stig. Strákarnir héldu einbeitingu og börðust allan leikinn, við erum með mjög góðan leikmannahóp þar sem allir innan félagsins þekkjast vel og eru samheldnir. Við erum með mjög sterka karaktera innanborðs sem gefast aldrei upp."
Brentford er um miðja deild með 28 stig eftir 21 umferð eftir þetta jafntefli.
„Ég er mjög jákvæður einstaklingur og hef trú á því að við getum sigrað gegn hvaða liði sem er. Ég veit að stundum förum við inn í leiki þar sem andstæðingarnir eru taldir vera sigurstranglegri, eins og í dag, en það er mikilvægt að leikmenn mæti inn á völlinn með trú og sjálfstraust. Það er mikilvægt að þeir viti að það sé mögulegt að sigra gegn bestu andstæðingunum með því að skila inn nægilega góðri frammistöðu."
Athugasemdir