Fyrrum framherjinn, Jimmy Floyd Hasselbaink, er að taka við starfi hjá enska fótboltasambandinu en hann mun aðstoða Gareth Southgate hjá enska landsliðinu.
Margir muna eftir Hollendingnum öfluga en hann og Eiður Smári Guðjohnsen mynduðu eitthvert eftirminnilegasta sóknarpar ensku úrvalsdeildarinnar frá 2000 til 2004.
Hasselbaink fór þaðan til Middlesbrough þar sem hann spilaði með Southgate í tvö ár áður en Englendingurinn lagði skóna á hilluna.
Eftir ferilinn fór Hasselbaink út í þjálfun en hann stýrði síðast Burton Albion. Hann hefur einnig þjálfað Antwerp, Northampton og QPR, en nú er hann klár í nýtt ævintýri.
Sky Sports segir frá því að hann sé í viðræðum við enska fótboltasambandið um að koma inn í þjálfarateymi Southgate og eru þær viðræður komnar langt á veg.
Athugasemdir