Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   mán 15. apríl 2013 15:00
Elvar Geir Magnússon
Heiðar Helgu: Veit ekki hvað tekur við eftir tímabilið
Óvíst hvort Heiðar klári ferilinn hér á landi
Heiðar Helguson í leik með Cardiff.
Heiðar Helguson í leik með Cardiff.
Mynd: Getty Images
Heiðar fagnar marki sínu um liðna helgi.
Heiðar fagnar marki sínu um liðna helgi.
Mynd: Getty Images
Heiðar Helguson og félagar í Cardiff eru hænuskrefi frá því að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni. Heiðar skoraði fyrsta mark Cardiff í 3-0 sigri gegn Nottingham Forest og þarf liðið aðeins eitt stig til viðbótar.

„Við þurfum eitt stig í viðbót eða vona að Watford misstigi sig á leiðinni. Vonandi náum við að klára þetta á morgun og þá getum við einbeitt okkur að því að vinna deildina," sagði Heiðar en Cardiff mætir Charlton annað kvöld.

Heiðar tognaði í kálfanum um helgina.

„Ég verð ekki með næstu tvo leiki, það er allavega pottþétt að ég verð ekki með á morgun. Svo sér maður til hvernig maður jafnar sig."

„Þetta tímabil hefur verið helvíti gott og við verið efstir síðan í nóvember. Það hefur gengið mjög vel. Við erum æstir í að klára þetta, það verða ekki fagnaðarlæti fyrr en við gerum það. Í boltanum getur allt gerst."

Með Cardiff leikur líka landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og segir Heiðar að hann sé í miklum metum hjá stuðningsmönnum liðsins.

„Hann hefur staðið sig rosalega vel og verið helvíti góður. Hann hefur klárlega verið einn af okkar betri mönnum eftir jól. Hann er fastamaður í liðinu og verið að gera góða hluti."

Mark Hughes vildi ekki hafa mig
Á síðasta tímabili lék Heiðar með QPR en margir stuðningsmanna liðsins sakna hans og telja að kraftar hans hefðu getað nýst liðinu í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er alltaf ef og hefði. Maður var seldur því Mark Hughes (þáverandi stjóri QPR) vildi ekki hafa mig. Það var ekkert annað í stöðunni en að fara eitthvað annað og ég er mjög ánægður með þá ákvörðun að fara í Cardiff," segir Heiðar.

Einhverjar sögusagnir hafa verið í gangi um að Heiðar, sem er 35 ára, gæti spilað hér á landi á komandi sumri. Hvað tekur við eftir tímabilið á Englandi?

„Það er bara sumarfrí, maður veit ekki meira. Ég hef ekki ákveðið neitt og þetta kemur bara í ljós. Ég sé bara hvernig mér líður og hvað ég vil gera. Fyrst er það bara sumarfrí og sér hvort ég hreinlega nenni að halda áfram í boltanum," segir Heiðar sem segir að engin íslensk félög hafi verið í sambandi við sig.
Athugasemdir
banner
banner