Real vill Branthwaite - Napoli sýnir Höjlund áhuga - Livramento og Cambiaso orðaðir við City
Enski boltinn - Svo gott sem komið hjá Liverpool
Tveggja Turna Tal - Eiður Ben Eiríksson
Hugarburðarbolti GW 26 Liverpool er langbesta lið deildarinnar !
Útvarpsþátturinn - Gylfaginning og ársþingið
Ótímabæra spáin fyrir Bestu deild kvenna
Hugarburðarbolti GW 25 Er kominn nýr egypskur prins í úrvalsdeildina ?
Og allt í einu er Gylfi kominn í Víking
Enski boltinn - Er botninum náð?
Tveggja Turna Tal - Guðjón Pétur Lýðsson
Útvarpsþátturinn - Sögulegur sigur, Siggi Raggi og ungir leikmenn
Enski boltinn - Sá síðasti í Guttagarði, töfrar í bikar og vesen á City
Tveggja Turna Tal - Finnur Orri Margeirsson
Útvarpsþátturinn - Heima í Helsinki og ótímabær Lengjuspá
Fótbolta nördinn - Undirbúningstímabil: Trivíaleikarnir
Hugarburðarbolti GW 24 Arsenal slátraði meisturum Man City 5-1!
Enski boltinn - Stay humble, janúarglugginn og Luka pælingar
Tveggja Turna Tal - Ómar Ingi Guðmundsson
Útvarpsþátturinn - Ótímabæra spáin þegar það eru tveir mánuðir í Bestu
Hugarburðarbolti GW 23 Er Hjálmar Örn farinn að þjálfa Tottenham?
Fótbolta nördinn - Úrslit: Víkingur vs Fylkir
   mán 15. maí 2017 14:10
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Siggi Lár: Óli og Bjössi stærsta ástæðan fyrir því að ég var áfram
Draumar um Íslandsmeistaratitil og atvinnumennsku
Sigurður segir að það hafi verið skemmtilegra að vinna bikarinn í fyrra en árið þar á undan.
Sigurður segir að það hafi verið skemmtilegra að vinna bikarinn í fyrra en árið þar á undan.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Einn hættulegasti sóknarleikmaður Pepsi-deildarinnar.
Einn hættulegasti sóknarleikmaður Pepsi-deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Sigurður Egill Lárusson, leikmaður Vals, kom í ítarlegt viðtal í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu á laugardaginn. Valsmenn hafa farið virkilega vel af stað í Pepsi-deildinni og unnið báða leiki sína af öryggi.

„Þessir fyrstu tveir leikir hafa verið virkilega góðir, við höfum verið að spila fantavel. Við höfum í raun verið að yfirspila í fyrstu tveimur leikjunum og fengið urmul af færum. Það er skrítið að segja að við höfum „bara" skorað sex mörk. Við eigum að vera búnir að skora fleiri," segir Sigurður.

„Óli Jó vill spila sóknarbolta og hann hefur verið mikið að einblína á það og við höfum verið að fá á okkur mörkum. Við þurfum að loka fyrir markið ef við ætlum okkur hluti í þessari deild því við skorum nánast í hverjum einasta leik. Við höfum fengið á okkur tvö mörk úr föstum leikatriðum og það er eitthvað sem við þurfum að laga."

Fótbolti.net spáði Val öðru sæti fyrir mót en í kvöld mætir liðið Íslandsmeisturum FH sem spáð er því efsta.

„Þetta verður allt annar leikur en fyrstu tveir. Þetta er alvöru prófraun ef við ætlum að berjast um efsta sætið. Við ætlum okkur að standa okkur vel í þessum leik. Persónulega hefur mér gengið vel gegn FH undanfarið og vonandi heldur það áfram," segir Sigurður.

Erum komnir með breiddina sem þarf
Meðal leikmanna sem Valur fékk fyrir tímabilið er Dion Acoff sem kom frá Þrótti. Hann hefur stimplað sig frábærlega inn.

„Þetta er rólegur og yfirvegaður gaur, ég hef aldrei séð eins fljótan gæja. Hann hefur komið virkilega vel inn í þetta hjá okkur og nú erum við mjög ógnandi á báðum köntum. Hann mun hjálpa okkur mikið."

Breiddin hjá Val er orðin ansi góð.

„Ef við ætlum að berjast á toppnum þurfum við að vera með góðan 18-20 manna hóp og við höfum hann. Það er gríðarleg samkeppni um stöðu í liðinu og það eykur gæði og tempó á æfingum. Ef þú slakar á kemur nýr maður inn og það veikir ekkert ef menn meiðast eða detta út," segir Sigurður.

Ákveðinn í að komast í atvinnumennsku
Sigurður Egill er 25 ára og hefur vaxið mikið sem leikmaður undanfarin ár.

„Fyrir tveimur til þremur árum fór maður að átta sig á því að maður þarf að leggja meira á sig. Það eru margir hlutir sem ég hef tekið til í. Þar má nefna mataræði, svefn og aukaæfingar. Svo eru margir litlir hlutir sem ég hef pælt í, teygja sig fyrir æfingar, ísbað, drekka nóg af vatni. Maður pældi ekkert í þessu áður fyrr," segir hann.

„Það vantaði meiri stöðugleika í minn leik fyrir svona tveimur til þremur árum. Ég vildi gera einhverja hluti og gera þetta af alvöru. Mig langar til að fara út í atvinnumennsku og þá þarf ég bara að leggja meira á mig. Ég hef gert það undanfarið og mér finnst hafa verið mikill stígandi í mínum leik. Ég stefni á að vinna Íslandsmeistaratitilinn og komast út. Þá þarf ég að leggja meira á mig. Ég hef verið að gera það."

Stefna hans er að komast út í atvinnumennsku og komast lengra á ferlinum. Hann var valinn í landsliðsverkefni í byrjun árs og í kjölfarið æfði hann til reynslu hjá tékkneska úrvalsdeildarfélaginu Jablonec en fékk ekki samning.

„Það er hörkulið og ég fékk smjörþefinn þar. Ég hélt að ég væri að fara að semja við þetta lið. Ég æfði með því í viku og spilaði einn leik, í kjölfarið vildu þeir fá mig með sér í æfingaferð til Portúgals þar sem ég spilaði tvo leiki. Ég spilaði í 2-0 sigri gegn Örebro og gekk vel. Svo mættum við Shaktar Donetsk sem var með sitt sterkasta lið, ég var á móti Darijo Srna sem var í hægri bak. Eftir það þá langar mér mikið út og ég tel mig geta verið að spila á þessu kaliberi. Þetta kveikir á mér að ætla að gera betur," segir Sigurður Egill.

Óli með stílabókina og Bjössi tölvuna
Hið skemmtilega þjálfarateymi Valsmanna, Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson, fær hæstu einkunn frá Sigurði Agli.

„Þeir eru ógeðslega skemmtilegir og manni hlakkar alltaf til að mæta á æfingar, það er mjög gaman. Á sama tíma geta þeir líka alveg verið grjótharðir og alvarlegir. Þeir eru drulluflottir og gera þetta vel. Óli er gamli skólinn og Bjössi nýi skólinn, Óli er með stílabókina og Bjössi í tölvunni. Þeir eru virkilega flottir og vega hvorn annan upp," segir Sigurður.

KA-menn fóru ekki leynt með áhuga sinn á Sigurði í vetur og fór hann í viðræður við félagið áður en hann gerði nýjan samning við Val.

„Ég talaði við nokkur lið og þar á meðal KA. Það var alveg virkilega spennandi sem þeir höfðu að bjóða en á endanum valdi ég Val. Ég tel Val henta mínum leikstíl best og Óli og Bjössi eru stærsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að vera áfram. Þá sá ég fram á að Valur gæti barist um titilinn á þessu ári og sá enga ástæðu til að fara,"

Tvö síðustu ár hefur Valur unnið bikarinn. Þegar liðið vann KR í úrslitaleik 2015 vann Sigurður Egill sinn fyrsta stóra titil. Í fyrra var hann síðan aðalmaðurinn í úrslitaleiknum og skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á ÍBV.

„Þetta var fyrsti stóri titillinn minn. Það gerði þetta enn sætara að vinna KR í úrslitaleik. Það var ótrúlega sætt að vinna þetta í fyrsta sinn en ég verð að viðurkenna að mér fannst eiginlega skemmtilegra að vinna þetta í annað sinn, þegar maður skorar bæði mörkin," segir Sigurður.

Að lokum var hann spurður að því hvort hann ætli að skora eða leggja upp í leiknum gegn FH í kvöld. „Ég ætla að skora," segir Sigurður Egill en viðtalið má heyra í heild í spilaranum hér efst.

Sjá einnig:
Hlustaðu gegnum Podcast forrit
Athugasemdir
banner
banner
banner