Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   lau 05. júlí 2025 14:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bern
Glódís kláraði ekki æfinguna - „Ákvörðun tekin í hádeginu á morgun"
Icelandair
EM KVK 2025
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Plan A er að Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði, muni spila gegn Sviss á Evrópumótinu á morgun. Það er þó ekki enn alveg víst að það takist.

Glódís var með á æfingu Íslands í dag en æfði ekki að fullu þar sem hún er enn að jafna sig af magakveisu sem hrjáði hana í fyrsta leik Íslands gegn Finnlandi.

„Við eigum eftir að sjá í sjálfu sér hvernig viðbrögðin í líkamanum verða. Hvort að það verði einhver eftirköst. Það verður ákvörðun tekin í hádeginu á morgun," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í dag.

„Hún kláraði ekki æfinguna. Við létum hana ekki klára fulla æfingu. Við vildum hlífa henni við mestu átökunum en við vildum sjá hvernig líkaminn myndi bregðast við þegar hún færi að hreyfa sig. Við erum bjartsýn og það er ekkert annað sem við erum að hugsa um núna varðandi það. Við sjáum hvernig kvöldið og nóttin verða, og hvernig hún verður þegar hún vaknar á morgun."

Hvernig hefur líðan hennar verið síðustu daga?

„Fyrsti sólarhringurinn var mjög erfiður og svo upp á við. Þetta hefur verið jákvæð þróun. Hún keyrði sig gjörsamlega út og þurrkaði allt upp. Það voru mikil átök fyrir líkamann að spila þessar 45 mínútur. Hún gerði allt sem hún mögulega gat til að spila þennan leik. Eftir þetta hefur þetta verið hægt og bítandi að lagast. Hún var nógu góð til að taka eitthvað þátt í æfingunni í dag. Við erum bjartsýn og plan A er að hún spili. Svo erum við með plan B. Við erum klár í allt," sagði Steini jafnframt.
Athugasemdir
banner