
Ísland mætir Sviss á morgun í öðrum leik sínum á Evrópumótinu. Leikið er á Wankdorf Stadium í Bern, sem er næst stærsti fótboltaleikvangurinn í Sviss. Hann er heimavöllur Young Boys, sem er eitt stærsta félagið hér í landi.
Það má gera ráð fyrir því að þéttsetið verði á vellinum þar sem þetta er afar mikilvægur leikur fyrir heimakonur.
Það má gera ráð fyrir því að þéttsetið verði á vellinum þar sem þetta er afar mikilvægur leikur fyrir heimakonur.
Ísland gat æft á keppnisvellinum í dag en kaus að gera það ekki. Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, útskýrði vel á blaðamannafundi af hverju liðið ákvað frekar að æfa á sínu svæði í Allmendingen í morgun.
„Fyrst er það að sleppa við að fara í rútu lengra en við þurfum. Svo er það líka að við getum verið í rólegheitum þarna. Við erum ekki í þessari tímapressu að vera bara í klukkutíma út á velli og svo bara 'burt með ykkur'. Við gátum bara dólað okkur í því sem við vildum gera og farið yfir allt sem við vildum fara yfir. Þó æfingin hafi ekki verið svakalega löng þá fórum við í rólegheitum yfir hluti sem við vildum fara yfir. Við vildum bara gefa okkur tíma í það," sagði Þorsteinn.
„Þetta var samkomulag á milli þjálfarateymis og leikmanna, við vorum öll sammála um þetta. Leikmenn eru vanir að spila á svona völlum, það er ekkert nýtt. Þetta er ekki vandamál og við höfum mjög oft gert þetta. Ef það er styttra fyrir okkur að fara á æfingasvæðið, þá notum við það bara."
Ingibjörg Sigurðardóttir, sem var einnig á fundinum, tók undir með Steina.
„Ég er alveg sammála því sem Steini sagði. Það var talað um þetta við leikmennina og við vorum öll á sömu blaðsíðu. Það er miklu betra að eiga góðan tíma á æfingunni daginn fyrir leik þar sem við getum farið yfir hlutina. Með rútu hefði þetta tekið hátt í tvo tíma að keyra og maður vill þetta ekki daginn fyrir leik. Við erum ánægðar með þessa ákvörðun," sagði Ingibjörg.
„Það er líka kannski annað í þessu að okkur er úthlutað ákveðnu tímaslotti á vellinum. Á æfingasvæðinu okkar gátum við æft um morguninn og það er þá lengra í leikinn og við fáum lengri hvíld fram að því. Það eru margir vinklar á þessu," sagði Steini jafnframt.
Athugasemdir