Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
banner
   lau 05. júlí 2025 11:27
Brynjar Ingi Erluson
Kyle Walker til Burnley (Staðfest)
Mynd: Burnley
Burnley hefur tilkynnt komu enska varnarmannsins Kyle Walker en hann kemur til félagsins frá Manchester City.

Walker, sem er 35 ára gamall, kemur til Burnley fyrir 5 milljónir punda og skrifaði hann undir tveggja ára samning við nýliðana.

Englendingurinn á 410 leiki í ensku úrvalsdeildinni og er af mörgum talinn með bestu varnarmönnum í sögu deildarinnar.

Hann hefur unnið deildina sex sinnum á ferlinum, enska bikarinn tvisvar og Meistaradeildina einu sinni, ásamt því að hafa fjórum sinnum verið valinn í lið ársins í deildinni.

Walker á 96 A-landsleiki fyrir England og var valinn í lið mótsins á EM á síðasta ári, en hann gekk í raðir Burnley til þess að eiga betri möguleika á að komast á HM á næsta ári.

„Ég er í skýjunum með að vera kominn hingað. Þegar ég talaði við Scott (Parker) og heyrði plön hans fyrir tímabilið þá sá ég að þetta var tækifæri sem ég þyrfti að stökkva á. Scott hefur unnið ótrúlegt starf hér með því að koma liðinu aftur í ensku úrvalsdeildina og það með því að rjúfa 100 stiga múrinn. Saman munum við horfa fram veginn og fagna því að vera kominn aftur í bestu deild heims

„Burnley átti stórkostlegt tímabil, sem var byggt á vörn sem náði ótrúlegu meti og get ég ekki beðið eftir að koma og bæta við minni reynslu og gæðum við mjög svo spennandi leikmannahóp,“
sagði Walker við komuna.


Athugasemdir