Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Brann gerðu svekkjandi 1-1 jafntefli við Íslendingalið Ham/Kam í norsku úrvalsdeildinni í dag.
Heimamenn í Ham/Kam fengu vítaspyrnu er varnarmaður Brann keyrði inn í sóknarmann Ham/Kam.
Markvörður Brann las hins vegar nákvæmlega hvert framherjinn ætlaði að setja boltann og varði spyrnuna nokkuð auðveldlega.
Tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks kom mark frá Ham/Kam eftir mikinn sóknarþunga og það gerði hann með glæsilegu innanfótarskoti fyrir utan teig.
Brann var með þvílíka yfirburði í síðari hálfleiknum og var aðeins tímapursmál hvenær markið kæmi. Það kom á 82. mínútu með hörkuskalla eftir fyrirgjöf frá vinstri.
Eggert Aron Guðmundsson var stórkostlegur fyrir Brann. Hann átti svakalega sendingu í aðdraganda marksins og fiskaði síðan vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar. en markvörður Ham/Kam varði spyrnuna frá Bard Finne.
Brynjar Ingi Bjarnason var í byrjunarliði Ham/Kam og átti fínan leik og þá kom Viðar Ari Jónsson inn af bekknum.
Brann er í 2. sæti deildarinnar með 27 stig en Ham/Kam í 13. sæti með 13 stig.
Daníel Tristan Guðjohnsen kom inn af bekknum hjá Malmö sem gerði markalaust jafntefli við GAIS í sænsku úrvalsdeildinni. Arnór Sigurðsson var fjarri góðu gamni.
Malmö er í 5. sæti með 24 stig.
Davíð Kristján skoraði í æfingaleik
Margir Íslendingar spiluðu æfingaleiki með félagsliðum sínum.
Davíð Kristján Ólafsson skoraði jöfnunarmark Cracovia í 2-1 sigrinum á Korona Kielce.
Valgeir Lunddal Friðriksson lék fyrri hálfleikinn í 6-0 stórsigri Fortuna Düsseldorf á FC Monheim og þá lék Kolbeinn Birgir Finnsson síðari hálfleikinn með Utrecht í 2-0 sigri á Club Brugge.
Helgi Fróði Ingason kom við sögu hjá Helmond Sport sem gerði 1-1 jafntefli við Go Ahead Eagles
Athugasemdir