
„Mér fannst við að mörgu leyti gera mjög vel í dag. Við erum aldrei sáttir þegar við töpum leikjum en eins og allir vita urðu ótrúlega skakkaföll í liðinu," sagði Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, eftir 2-0 tap í Belgíu í Þjóðadeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Belgía 2 - 0 Ísland
„Mér fannst við gera vel úr þeirri stöðu að halda þeim í 0-0 og fá ekkert færi á okkur í fyrri hálfleik. Við töluðum um það að þeir væru ekki að fara að komast í gegnum okkur og við myndum fá færið okkar."
„Það var lag að ná frábærum úrslitum hérna en svo fór sem fór."
„Við lokuðum mjög vel á þá og það hefði verið hrikalega sætt að fara hérna með 0-0, ég tala þá ekki um ef við hefðum náð að pota inn einu - það hefði allt þurft að ganga upp til þess."
„Það er margt jákvætt í frammistöðunni, við höfum verið að segja það mikið upp á síðkastið en það er staðreynd. Við vorum að prófa nýtt leikkerfi, við getum notað þetta þegar við erum að spila gegn sterkum þjóðum."
„Fyrra markið þeirra kemur eftir frábæra sendingu á milli varnarinnar, við eigum samt ekki að lenda í þessu þegar við erum með svona marga í varnarlínunni. Í seinna markinu nær hann snöggu skoti inn í teig, ég reyni að dempa boltann. Ég geri í rauninni það sem ég ætla að gera, ég dempa boltann og í 95% tilvika þá tekur maður boltann upp og heldur áfram. Í þetta skiptið datt hann fyrir sóknarmanninn sem er svekkjandi."
Athugasemdir