Man Utd íhugar að gera 40 milljóna punda tilboð í Delap - Liverpool tilbúið að bjóða Nunez upp í Isak - Tottenham horfir til stjóra Bournemouth
banner
   sun 16. febrúar 2025 17:48
Ívan Guðjón Baldursson
Sigrar hjá Bayern og Wolfsburg - Madrid og Leverkusen töpuðu
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Madrid CFF
Það voru nokkrar íslenskar atvinnukonur í fótbolta sem mættu til leiks víða um Evrópu í dag.

Sveindís Jane Jónsdóttir spilaði seinni hálfleikinn í stórsigri Wolfsburg á heimavelli gegn Eintracht Frankfurt í toppbaráttu þýska boltans.

Staðan var orðin 5-0 þegar Sveindísi var skipt inn á völlinn á 49. mínútu og urðu lokatölur 6-1. Wolfsburg jafnar Frankfrut á stigum með þessum sigri, liðin deila öðru sæti þýsku deildarinnar með 35 stig eftir 15 umferðir - þremur stigum á eftir Glódísi Perlu Viggósdóttur og stöllum í toppliði FC Bayern.

Pernille Harder skoraði eina mark leiksins er Bayern vann 1-0 gegn Werder Bremen fyrr í dag. Glódís Perla lék allan leikinn í hjarta varnarinnar.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir spilaði þá fyrstu 79 mínúturnar í óvæntu tapi Bayer Leverkusen í Hoffenheim. Leverkusen er í fjórða sæti, fimm stigum á eftir Frankfurt og Wolfsburg eftir þetta tap. Þetta er þriðja tapið í fjórum síðustu leikjum Leverkusen og þykir ljóst að leikmenn liðsins þurfa að stíga upp til að rétta úr kútnum og reyna að taka þátt í toppbaráttunni.

Í spænska boltanum mættust Barcelona og Madrid CF í hörkuslag þar sem Ásdís Karen Halldórsdóttir byrjaði á bekknum hjá gestunum í liði Madrid.

Madrid tók forystuna óvænt á upphafsmínútunum en gleðin var skammlíf þar sem Börsungar snéru stöðunni við og voru búnar að breyta henni í 4-1 þegar Ásdísi var skipt inn af bekknum.

Lokatölur urðu 5-1 fyrir stórveldi Barcelona, sem er með átta stiga forystu á toppi spænsku deildarinnar. Madrid er í neðri hluta deildarinnar, þó heilum átta stigum fyrir ofan fallsvæðið.

BK Häcken vann þá æfingaleik gegn Fortuna Hjörring í dag, en Fanney Birkisdóttir er á mála hjá Häcken.

Wolfsburg 6 - 1 Eintracht Frankfurt

Bayern 1 - 0 Werder Bremen

Hoffenheim 1 - 0 Leverkusen

Barcelona 5 - 1 Madrid

Hacken 3 - 2 Fortuna Hjorring

Athugasemdir
banner
banner
banner