Gunnar Borgþórsson var sáttur eftir 3-2 sigur gegn Kára í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld. Selfyssingar skoruðu sigurmarkið í blálokin.
„Mér fannst við ekkert vera pirraðir í endann. Mér fannst við vera gríðarlega pirraðir upp undir miðjan fyrri hálfleik, þá fórum við aðeins út úr okkar stíl og menn urðu pirraðir, neikvæðir og við hættum að vinna saman."
„Mér fannst við vinna vel úr því í hálfleik og svo skora þeir gott aukaspyrnu mark og leikurinn var bara jafn. Þetta var gott lið sem við vorum að spila á móti."
Selfyssingar skoruðu tvö mörk í byrjun leiks og leit allt út fyrir að stórsigur væri í uppsiglingu en svo varð sannarlega ekki raunin.
„Við skorum 2 mörk og lítum mjög vel út, það er vonandi það sem við tökum út úr þessum leik og munum að við erum þannig lið að við fáum ekkert gefins. Við þurfum að vinna fyrir hverjum einasta bolta og einasta sigri."
Athugasemdir






















