mán 16. maí 2022 08:52
Elvar Geir Magnússon
Christensen gaf ekki kost á sér í bikarúrslitaleikinn
Andreas Christensen.
Andreas Christensen.
Mynd: Getty Images
Varnarmaðurinn Andreas Christensen var ekki í leikmannahópi Chelsea í bikarúrslitaleiknum gegn Liverpool á laugardag. Búist er við því að Daninn gangi í raðir Barcelona á frjálsri sölu í sumar.

Christensen var ekki meiddur en tilkynnti Thomas Tuchel, stjóra Chelsea, það á laugardagsmorgun að hann gæfi ekki kost á sér í leikinn.

Samkvæmt Guardian átti Christensen líklega að byrja á bekknum í bikarúrslitaleiknum en hafi ekki liðið vel dagana fyrir leikinn og sagði Tuchel að hann væri ekki andlega tilbúinn að spila. Christensen hafði byrjað sigurleik Chelsea gegn Leeds síðasta miðvikudag.

Sagt er að liðsfélagar Christensen hafi orðið gáttaðir þegar leikmaðurinn yfirgaf liðshótelið.

Liverpool vann bikarmeistaratitilinn eftir vítaspyrnukeppni.

Stórar breytingar verða í varnarlínu Chelsea eftir tímabilið. Cezar Azpilicueta gæti farið einnig til Barcelona og þá er Antonio Rudiger búinn að semja við Real Madeid. Chelsea hefur verið orðað við Jules Kounde hjá Sevilla, José María Gimenez hjá Atletico Madrid, Wesley Fofana hjá Leicester og Josko Gvardiol hjá RB Leipzig.
Athugasemdir
banner
banner
banner