Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   sun 16. júní 2024 17:54
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Slóvenar náðu að jafna gegn Dönum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Slóvenía 1 - 1 Danmörk
0-1 Christian Eriksen ('17)
1-1 Erik Janza ('77)

Slóvenía og Danmörk áttust við í fyrstu umferð Evrópumótsins í dag og voru Danir talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.

Christian Eriksen tók forystuna snemma leiks fyrir frændur okkar, en nú eru þrjú ár liðin síðan hann hneig niður á síðasta Evrópumóti og skaut skelk í bringu á öllum fótboltaheiminum.

Eriksen skoraði af stuttu færi eftir laglega sókn og frábæra sendingu frá Jonas Wind og voru Danir óheppnir að tvöfalda ekki forystuna fyrir leikhlé.

Seinni hálfleikurinn var talsvert jafnari en sá fyrri þar sem Slóvenar mættu grimmir til leiks.

Benjamin Sesko gerði sig líklegan með hættulegum skotum utan vítateigs og hæfði annað þeirra stöngina, þar sem Kasper Schmeichel átti ekki möguleika á að ná til boltans. Skömmu síðar skoraði Erik Janza jöfnunarmarkið eftir hornspyrnu.

Hornspyrnan fór í gegnum þvöguna innan vítateigs og barst boltinn út til Janza sem lét vaða með afar föstu skoti. Schmeichel virtist vera með þetta á hreinu, en boltinn breytti um stefnu af varnarmanni og endaði í netinu. Ekkert sem Schmeichel gat gert til að koma í veg fyrir mark.

Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum á lokakaflanum en engum tókst að bæta marki við. Lokatölur urðu því 1-1 og fyrsta jafntefli Evrópumótsins hefur litið dagsins ljós.


Athugasemdir
banner