Alisson Becker, markvörður Liverpool á Englandi, segist ekki ánægður með fjölgun leikja og að leikmenn séu dauðþreyttir á auknu leikjaálagi.
UEFA, fótboltasamband Evrópu, tilkynnti nýtt fyrirkomulag á Evrópukeppnum fyrir þetta tímabil, en nú er spilað í deildarkeppni.
Liðin sem leika í Meistaradeild Evrópu spila átta leiki í deildarkeppninni. Þau lið sem hafna í 9. - 24. sæti fara þá í umspil um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.
Dagskráin yfir árið er orðin mjög þétt og segir Alisson þetta bitna á leikmönnum.
„Það er alltaf góð hugmynd að bæta við leikjum á dagatalið, sem er alls ekki svo annríkt. Það er mögulega smá vottur af kaldhæðni í þessu svari.“
„Enginn spyr leikmennina hvað þeim finnst um að bæta við leikjum, þannig kannski skiptir skoðun okkar engu máli. Allir eru þreyttir,“ sagði Alisson í dag.
Leikmenn hafa verið háværir í fjölmiðlum varðandi fjölgun leikja, en þetta fer líklega inn um annað eyrað hjá þeim sem taka ákvarðanirnar hjá UEFA og FIFA, og út um hitt.
Athugasemdir