Andoni Iraola og Marco Silva eru tveir kostir sem Tottenham mun skoða ef félagið ákveður að reka ástralska stjórann Ange Postecoglou en þetta segir enska blaðið Telegraph í dag.
Postecoglou situr í heitu sæti eftir 2-0 tap liðsins gegn Fulham um helgina en Tottenham er í 14. sæti, þrettán stigum frá Evrópusæti þegar níu umferðir eru eftir.
Telegraph segir að Tottenham sé þegar byrjað að líta í kringum sig, það er að segja ef Postecoglou tekst ekki að bæta árangur liðsins.
Iraola og Silva eru taldir vera efstir á blaði hjá Tottenham, en Iraola hefur gert magnaða hluti með lið Bournemouth síðustu tvö ár og gert liðið að Evrópubaráttuliði á meðan Silva hefur náð góðum árangri með Fulham frá því hann tók við liðinu fyrir fjórum árum.
Tottenham mun þó ekki ráðast í þjálfarabreytingar fyrr en í sumar og hefur því Postecoglou enn tíma til þess að bjarga starfi sínu. Liðið er auðvitað komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar, en sigur í þeirri keppni er líklega eina von félagsins um að komast í Evrópukeppni á næsta ári.
Athugasemdir