
Slúðurpakki dagsins er tilbúinn og er nóg um að ræða á Skírdegi, þar sem Moisés Caicedo, Xavi Simons og Sandro Tonali koma meðal annars fyrir.
Sádi-arabíska stórveldið Al-Nassr vill kaupa miðjumanninn Moisés Caicedo, 23, fyrir rúmlega 100 milljónir punda. Caicedo er mikilvægur hlekkur í liði Chelsea. (Telegraph)
Xavi Simons, 21 árs sóknartengiliður RB Leipzig, er ofarlega á óskalistanum hjá Manchester United en ólíklegt að hann gangi til liðs við Rauðu djöflana ef liðið kemst ekki í Meistaradeildina fyrir næstu leiktíð. (Daily Mail)
Juventus hefur áhuga á ítalska miðjumanninum Sandro Tonali, 24, sem hefur öðlast mikilvægt hlutverk hjá Newcastle. (Gazzetta dello Sport)
RB Leipzig er reiðubúið til að selja Benjamin Sesko fyrir 100 milljónir evra. Sesko er 21 árs framherji sem Arsenal hefur mikinn áhuga á að kaupa en Man Utd og Chelsea eru einnig áhugasöm. (Bild)
Tottenham ætlar að hafna öllum tilboðum í Destiny Udogie, 22 ára vængbakvörð, í sumar. Manchester City er meðal áhugasamra félaga. (Florian Plettenberg)
Sporting er reiðubúið til að hlusta á tilboð í 23 ára miðvörðinn sinn Goncalo Inacio sem er afar eftirsóttur og þá sérstaklega af Man Utd. (A Bola)
Benfica hefur áhuga á að kaupa Joao Felix aftur til sín en þessi portúgalski sóknarleikmaður hefur aldrei fundið réttan takt eftir að hafa yfirgefið herbúðir Benfica sumarið 2019 fyrir metfé. Hann er samningsbundinn Chelsea í dag og leikur á láni hjá AC Milan. (Record)
Juventus hefur mikinn áhuga á varnarmanninum Renato Veiga sem er á láni hjá félaginu frá Chelsea. Ítalska stórveldið getur keypt Veiga fyrir 48 milljónir punda eða reynt að lengja lánssamninginn. (Tuttosport)
Chicago Fire er búið að setja sig í samband við umboðsteymið hjá Kevin De Bruyne, 33, í tilraun til að krækja í belgísku stórstjörnuna á frjálsri sölu þegar samningurinn við Man City rennur út í sumar. (Fabrizio Romano)
Marcus Rashford, 27, vonast til að vekja áhuga stórliða á sér með góðri frammistöðu á láni hjá Aston Villa. (Talksport)
Man Utd er þegar byrjað að skoða bestu kostina til að taka við stöðunni hans Rashford í leikmannahópnum. (Sky Sports)
Man Utd er einnig að skoða að lána Rashford aftur út. (Times)
Búist er við að Antoine Griezmann, 34, skrifi undir nýjan samning við Atlético Madrid sem gildir næstu tvö árin. (Mundo Deportivo)
Miðjumaðurinn Ryan Gravenberch er ekki á leið frá Liverpool þrátt fyrir ummæli umboðsmanns hans um Real Madrid. (Daily Mail)
Michail Antonio, 35, vonast til að fá nýjan samning hjá West Ham. Núverandi samningur hans rennur út í sumar. (Times)
Athugasemdir