Tyrkneska félagið Galatasaray hefur lagt fram tæplega 8 milljóna punda tilboð í Ederson, markvörð Manchester City á Englandi.
Galatasaray hefur lengi haft áhuga á Ederson og hefur félagið nú tekið fyrsta skrefið.
Átta milljóna punda tilboð var lagt á borðið í dag, en Man City mun líklegast hafna því. Samkvæmt Fabrizio Romano vill enska félagið fá aðeins hærri upphæð fyrir leikmanninn.
Ederson hefur staðið á milli stanganna hjá Man City frá 2017, en hann hefur skoðað þann möguleika að yfirgefa félagið síðustu tvö sumur og er nú líklegt að það verði að veruleika.
Ef hann fer til Galatasaray mun það skapa pláss fyrir Man City til að kaupa Gianluigi Donnarumma frá Paris Saint-Germain. Donnarumma er sagður opinn fyrir því að ganga í raðir City.
Donnarumma á ekki framtíð hjá PSG og var hann meðal annars skilinn eftir utan hóps þegar liðið mætti Tottenham í Ofurbikar Evrópu í miðri viku. Í kjölfarið sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist vonsvikinn og niðurdreginn yfir ákvarðanatöku félagsins.
Athugasemdir