
Diljá Ýr Zomers spilaði seinni hálfleikinn í 2-1 sigri Brann gegn Vålerenga í titilbaráttu efstu deildar norska boltans í dag.
Vålerenga tók forystuna snemma leiks en Brann jafnaði í síðari hálfleik. Það var Brenna Lovera, fyrrum leikmaður ÍBV og Selfoss, sem kom inn af bekknum til að gera sigurmarkið í uppbótartíma.
Sædís Rún Heiðarsdóttir spilaði síðustu 20 mínúturnar í liði Vålerenga.
Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Brann sem tekur toppsæti deildarinnar. Liðið er með 44 stig eftir 17 umferðir, fjórum stigum fyrir ofan Vålerenga sem situr eftir í þriðja sæti. Rosenborg er í öðru sæti.
Í næstefstu deild mættust Molde og Álasund í öðrum toppslag. Þar hafði Álasund betur og skóp þægilegan þriggja marka sigur á útivelli.
Daníela Dögg Guðnadóttir var ónotaður varamaður í liði Álasunds á meðan Marie Rekdal Johannsdottir kom inn af bekknum í liði Molde og skoraði sjálfsmark.
Álasund trónir á toppi deildarinnar með þriggja stiga forystu á Molde í öðru sæti.
Í karlaboltanum spilaði Guðlaugur Victor Pálsson fyrri hálfleikinn í tapleik hjá Plymouth.
Plymouth var 1-0 undir þegar Victori var skipt út í hálfleik en lokatölur urðu 3-2 fyrir Lincoln City. Plymouth er því án stiga eftir þrjár fyrstu umferðirnar í League One deildinni, sem er þriðja efsta deild í enska deildakerfinu.
Victor er fyrirliði Plymouth og þarf liðið að hysja upp um sig brækurnar eftir skelfilega byrjun á nýju tímabili.
Jason Daði Svanþórsson er enn meiddur og var því ekki með í 2-1 sigri Grimsby gegn Newport County á meðan Benóný Breki Andrésson var ónotaður varamaður í 2-2 jafntefli Stockport County gegn Leyton Orient.
Patrik Sigurður Gunnarsson var að lokum ekki í hóp hjá Kortrijk sem sigraði gegn Lierse í næstefstu deild í Belgíu. Kortrijk er með sex stig eftir tvær fyrstu umferðirnar þar.
Brann 2 - 1 Valerenga
0-1 M. Preus ('6)
1-1 I. Stenevik ('63)
2-1 Brenna Lovera ('92)
Molde 0 - 3 Aalesund
0-1 L. Gashi ('13)
0-2 C. Luthcke ('17)
0-3 Marie Johannsdottir, sjálfsmark ('82)
Lincoln 3 - 2 Plymouth
Grimsby 2 - 1 Newport
Leyton Orient 2 - 2 Stockport
Kortrijk 1 - 0 Lierse
Athugasemdir