Baleba fer ekki til Man Utd í sumar - Newcastle enn í framherjaleit - Ederson til Galatasaray?
   lau 16. ágúst 2025 15:06
Ívan Guðjón Baldursson
Daníel Tristan skoraði og lagði upp - Ísak Snær óstöðvandi
Daníel Tristan nýtti tækifærið.
Daníel Tristan nýtti tækifærið.
Mynd: Malmö
Ísak er búinn að skora fjögur mörk í fimm leikjum með Lyngby!
Ísak er búinn að skora fjögur mörk í fimm leikjum með Lyngby!
Mynd: Lyngby
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Íslendingar skinu skært í fyrstu leikjum dagsins í Evrópu þar sem Daníel Tristan Guðjohnsen nýtti tækifærið í byrjunarliði Malmö.

Daníel Tristan var í byrjunarliðinu á útivelli gegn Halmstad í efstu deild sænska boltans og skoraði fyrsta mark leiksins eftir fimmtán mínútur. Hann lagði næsta mark svo upp og urðu lokatölur 0-4 fyrir Malmö.

Daníel Tristan skoraði því og lagði upp í þægilegum sigri en Arnór Sigurðsson var ónotaður varamaður. Gísli Eyjólfsson var einnig ónotaður varamaður í liði Halmstad.

Malmö er í þriðja sæti eftir sigurinn, tíu stigum á eftir toppliði Mjällby. Halmstad er þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Í næstefstu deild í Danmörku var Ísak Snær Þorvaldsson á sínum stað í byrjunarliði Lyngby á útivelli gegn Kolding. Heimamenn í Kolding tóku forystuna en Ísak Snær skoraði jöfnunarmarkið á 71. mínútu. Liðsfélagar hans sáu svo um að klára leikinn með tveimur mörkum á lokakaflanum svo lokatölur urðu 2-3 fyrir Lyngby.

Jóhannes Kristinn Bjarnason fékk að spila síðasta stundarfjórðunginn í liði Kolding á meðan Ari Leifsson sat á bekknum allan tímann.

Lyngby fer upp í annað sæti með þessum sigri, liðið er þar með 10 stig eftir 5 umferðir - einu stigi á eftir toppliði Horsens. Kolding er einu stigi á eftir Lyngby.

Adam Ingi Benediktsson og Ægir Jarl Jónasson voru svo í byrjunarliði Akademisk Boldklub í þriðju efstu deild í Danmörku. AB vann gegn Brabrand og er komið með þrjú stig eftir tvær fyrstu umferðirnar.

Að lokum lék Elías Már Ómarsson allan leikinn er Meizhou Hakka tapaði á útivelli í kínversku deildinni. Meizhou var talsvert sterkari aðilinn á vellinum og klúðraði mikið af góðum færum til að tapa 1-0.

Þetta var slæmt tap í fallbaráttunni. Meizhou Hakka er einu stigi fyrir ofan fallsæti en andstæðingar þeirra í dag voru Changchun Yatai sem verma botnsæti deildarinnar.

Í kvennaboltanum var Alexandra Jóhannsdóttir í byrjunarliði Kristianstad sem lagði Rosengård að velli 2-1 í sænska boltanum.

Alexandra lék allan leikinn og fékk Ísabella Sara Tryggvadóttir að spila síðustu 20 mínúturnar í liði gestanna frá Malmö.

Kristianstad er þremur stigum frá Evrópusæti og sjö stigum frá toppsætinu eftir sigurinn. Rosengård situr eftir um miðja deild, átta stigum á eftir Kristianstad.

Halmstad 0 - 4 Malmö
0-1 Daníel Tristan Guðjohnsen ('15)
0-2 C. Rosler ('35)
0-3 T. Ali ('44)
0-4 S. Haksabanovic ('53)

Kolding 2 - 3 Lyngby
1-0 I. Tannander ('40)
1-1 Ísak Snær Þorvaldsson ('71)
1-2 B. Blume ('78)
1-3 F. Gytkjær ('82)
2-3 M. Olsen ('87)

Brabrand 1 - 2 AB

Changchun Yatai 1 - 0 Meizhou Hakka


Kristianstad 2 - 1 Rosengard
1-0 E. Petrovic ('34)
2-0 A. Egner ('47)
2-1 E. Pennsater ('56)
Athugasemdir