Eddie Howe svaraði mikið af spurningum eftir markalaust jafntefli hjá Newcastle gegn Aston Villa í fyrstu umferð á nýju úrvalsdeildartímabili í dag.
Hann var meðal annars spurður út í sænska framherjann Alexander Isak sem vill skipta yfir til Liverpool.
Isak hefur ekki æft með hópnum eða gefið kost á sér í leiki með liðinu vegna málsins. Hann vill ólmur skipta til Liverpool en Newcastle hafnaði opnunartilboði Englandsmeistaranna, sem hljóðaði upp á 110 milljónir punda. Newcastle er talið vilja fá 150 milljónir fyrir leikmanninn.
Stuðningsmenn Newcastle eru mjög ósáttir með Isak og sungu meðal annars um hann í jafnteflinu gegn Villa. Þar heyrðist greinilega þegar stuðningsmannahópur Newcastle sem ferðaðist með liðinu kallaði Isak 'greedy bastard' hástöfum eftir leikslok eins og sést hér.
Newcastle saknaði Isak gegn Villa í dag þar sem sóknarleikmenn liðsins klúðruðu nokkrum fínum færum sem kostuðu að lokum tvö stig.
„Ekkert hefur breyst. Dyrnar eru galopnar fyrir hann. Hann þarf að taka ákvörðun um hvað hann ætlar að gera. Við viljum að málið sé leyst sem fyrst, þetta er truflandi fyrir liðsheildina," sagði Howe meðal annars eftir jafnteflið.
„Ég stjórna ekki framtíð hans, það er bara ein manneskja sem gerir það. Við getum ekki gert annað en að bíða og sjá hvað setur. Ég hef sagt skýrt frá minni stöðu: ég þarf að leggja alla mína einbeitingu í að undirbúa liðið fyrir næsta leik.
„Stuðningsmennirnir voru frábærir í dag og ef þeir hafa eitthvað sem þeir vilja segja þá mega þeir það."
15.08.2025 09:58
Howe: Staðan varðandi Isak óbreytt
Athugasemdir