Sam Allardyce, fyrrum stjóri Newcastle United, hvetur félagið til þess að selja sænska framherjann Alexander Isak áður en glugginn lokar.
Newcastle hefur reynt allt til þess að halda Isak en leikmaðurinn hefur algerlega séð til þess að hann eigi ekki afturkvæmt í hóp liðsins.
„Seljið hann og reynið að finna einhvern í staðinn. Ágústmánuður er að klárast og glugginn að loka,“ sagði Allardyce við Sky Sports.
Newcastle hefur verið í dauðaleit að framherja. Upphaflega var planið að fá mann í stað Callum Wilson sem yfirgaf félagið í sumar er samningur hans rann út, en það breyttist þegar Isak tjáði félaginu að hann vildi fara til Liverpool.
Isak hefur verið aðalmaður Newcastle síðustu ár, en núna er liðið án hans. Framherjinn hefur neitað að æfa með hópnum og gerir allt til þess að komast til Englandsmeistaranna.
„Reynið að fá það besta sem er í boði. Newcastle mun þurfa að borga meira en venjulega því öll félög sem vilja selja leikmann til Newcastle munu sprengja upp verðið. Ef þeir eru heppnir mun verðið aðeins hækka um 20 prósent og jafnvel meira.“
„Leikmaður sem átti að kosta þig 60 milljónir punda mun líklega kosta þig 90 milljónir í dag. Þannig þeir verða bara að kyngja því og borga. Ef leikmaðurinn er sá rétti til að leysa Isak af hólmi, sem verður líklega ekki jafn góður, þá mun sá og hinn sami klárlega skila frábæru framlagi,“ sagði Allardyce í lokin.
Newcastle er að vinna í kaupum á Yoane Wissa, leikmanni Brentford, og þá er portúgalski leikmaðurinn Goncalo Ramos ofarlega á blaði. Hann er á mála hjá Paris Saint-Germain í Frakklandi.
Athugasemdir