lau 17. september 2022 20:56
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnór Smára ónotaður varamaður - „Ekkert flóknara en það"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vakti athygli fréttamanns að Arnór Smárason var ónotaður varamaður hjá Val í dag. Arnór hefur þónokkrum sinnum í sumar komið inn með krafti sem varamaður hjá Val og hjálpað liði sínu að ná í úrslit.

Sú varð ekki raunin í dag, þjálfarinn Ólafur Jóhannesson ákvað að nýta einungis eina skiptingu þrátt fyrir að liðið var undir gegn KA. Eina skiptingin kom á 76. mínútu í kjölfar eina marks leiksins sem KA skoraði. Inn kom Heiðar Ægisson fyrir Hauk Pál Sigurðsson.

Lestu um leikinn: Valur 0 -  1 KA

Fréttamaður spurði Ólaf hvort það væri einhver sérstök ástæða fyrir því að Arnór hefði ekki komið við sögu í leiknum.

„Ég var með átján menn í hóp í dag og skipti einum inn á. Það er nú ekkert flóknara en það," sagði Ólafur.

Í kjölfar tapleiks Vals gegn Leiknis, leikur sem fram fór um síðustu helgi, var rætt um undirbúning Valsliðsins fyrir leikinn gegn Leikni. Umræðan átti sér stað í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin og hafði þáttarstjórnandinn Ríkharð Óskar Guðnason rætt við ónefndan leikmann Vals sem gagnrýndi undirbúning liðsins og vinnuaðferðir Óla Jó.

Í öðrum þætti hlaðvarpsins, seinna í þessari viku, kom svo fram að öll spjót hefðu beinst að Arnóri, að hann væri þessi ónefndi heimildarmaður Ríkharðs. Ríkharð neitaði því þó alfarið.

Ólafur hafði ekkert um umræðuna um undirbúning Valsliðsins fyrir leikinn á móti Leikni að segja.

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, var einnig spurður út í sömu umræðu.

„Mér er alveg sama hvað er talað um fjölmiðlum, ég fókusera á að spila fótbolta hérna, gera það með mínu liði. Mér gæti ekki verið meira sama hvað er sagt í fjölmiðlum."
Haukur Páll svekktur: Ætlast til að dæmd sé rangstaða þegar flaggið fer upp
Óli Jó: Að tapa þessum leik er með ólíkindum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner