Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   þri 17. september 2024 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Umfjöllun um Heimi óvægin - „Hverjir halda þessir Írar að þeir séu?"
Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Írlands.
Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Írlands.
Mynd: Getty Images
Heimir með Evan Ferguson, stærstu stjörnu írska landsliðsins.
Heimir með Evan Ferguson, stærstu stjörnu írska landsliðsins.
Mynd: Getty Images
Írland tapaði fyrir Englandi í fyrsta leik Heimis.
Írland tapaði fyrir Englandi í fyrsta leik Heimis.
Mynd: Getty Images
Heimir tók við Írlandi í júlí.
Heimir tók við Írlandi í júlí.
Mynd: Getty Images
„Það er mikið rætt og ritað um hann í írskum fjölmiðlum sem hafa verið ansi óvægnir," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag þegar rætt var um byrjun Heimis Hallgrímssonar með írska landsliðið.

Heimir var óvænt ráðinn landsliðsþjálfari Írlands fyrir um tveimur mánuðum síðan en í fyrsta glugga hans með liðið þá var niðurstaðan tap gegn bæði Englandi og Grikklandi.

Stuðningsmenn Írlands voru ekki sáttir með byrjunina hjá íslenska þjálfaranum og fréttamenn hafa látið gamminn geysa.

„Hverjir halda þessir Írar að þeir séu? Nei, í alvörunni," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum þegar rætt var um byrjunina hjá Heimi.

„Þetta var ekki góð frammistaða og ég veit að það er ýmislegt í þessu... Við skulum átta okkur á því að þetta írska lið getur bara ekki neitt. Þeir eru búnir að fara á eitt stórmót síðustu 20 árin og það er ekki eins og þeir eigi einhverja ríka sögu í fótboltanum."

„Frægasti leikmaðurinn þeirra og sá besti er varamaður hjá Brighton í dag (Evan Ferguson). Næst mesta stjarnan í þessu liði er varamarkvörður Liverpool (Caoimhin Kelleher). Þeir þurfa að slappa af og átta sig á því hvar þeir eru. Líka á því hvað Heimir Hallgrímsson hefur gert fyrir þau lönd sem hann hefur þjálfað. Þetta er gæi sem fór beint á HM með Íslandi með þremur liðum sem höfðu verið á EM árið áður. Hann nær í stig gegn Argentínu og fer svo til Jamaíku að kenna liði sem hefur aldrei varist frá því þeir spörkuðu fyrst í fótbolta. Hann fer í átta-liða úrslit í Gullbikarnum og í úrslitaleik í Þjóðadeildinni í algjörlega vanstilltu batteríi sem þetta jamaíska umhverfi var," sagði Tómas og hélt áfram:

„Írska landsliðið er bara hannað til að ná sama árangri og Ísland. Þetta eru ekkert alltof frægir menn. A-landslið Íslands 2016-18 er betra heldur en Írland í dag. Við verðum að átta okkur á því. Það eru bara staðreyndir. Þeir töpuðu fyrir Englandi sem var að koma úr úrslitaleik Evrópumótsins. Þið hafið ekkert inn á sama völl og þeir að gera. Batteríið þarna er í molum og þeir eiga engan pening eftir að fjármununum var stolið af fjármálastjóranum. Þeir virðast ekki vita mikið hvað þeir eru að gera upp á skrifstofunni þarna. Andúðin beinist að stjórn írska fótboltasambandsins en er send á Heimi af því að hann tapar tveimur fótboltaleikjum."

„Hefur Írland verið að vinna mikið af fótboltaleikjum upp á síðkastið? Heldur betur ekki."

Elvar og Tómas telja að pirringurinn sem hefur beinst að Heimi sé verulega ósanngjarn.

„Þetta er uppsöfnuð reiði og pirringur gagnvart úrslitunum í langan tíma og gagnvart stjórn sambandsins sem beinist núna að Heimi sem hefur stýrt liðinu í tveimur leikjum," sagði Elvar Geir.

„Þeir vita ekkert hvað þeir vilja og eru með algjört ofmat á þessu liði. Gefið manninum smá tíma til að kenna þeim að verjast. Það væri líka fínt ef Kelleher gæti varið fótboltaskot," sagði Tómas.

Rætt var um það í þættinum að Heimir hafi gert ákveðin mistök með því að leyfa aðstoðarþjálfaranum John O'Shea að fara einn á fréttamannafund eftir leikinn gegn Englandi. Það hafi verið olía á eldinn í umræðu írskra fjölmiðla um að Heimir sé ekki nægilega ákveðinn.

Nokkrir aðilar innan írska fótboltans hafa komið Heimi til varnar - og þar á meðal þjálfari Shamrock Rovers - en alla umræðuna úr útvarpinu má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Kennslustund á Meistaravöllum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner