Krakkakviss: Fótbolti er nýtt spurningaspil fyrir krakka um fótbolta. Það er útgáfan Fullt tungl sem gefur út spilið en eigandi hennar er sjónvarpsmaðurinn Björn Bragi Arnarsson.
„Þetta er auðvitað mikið fótboltaár, bæði HM karla núna og EM kvenna í sumar, þannig að það var tilvalið að gefa þetta út núna,“ segir Björn Bragi.
„Spilið inniheldur 300 skemmtilegar spurningar fyrir krakka um allt sem tengist fótbolta. HM, EM, enska boltann, Meistaradeildina, íslenska karla- og kvennalandsliðið og allt þar á milli,“ segir hann.
Hann segir að spurningarnar í fótboltaspilinu séu miserfiðar þannig að það eigi að geta hentað fyrir breiðan aldur.
Björn Bragi stýrir spurningaþættinum Kviss á Stöð 2 og hefur gefið út spurningaspilin Pöbbkviss og Krakkakviss samhliða þeim. „Ég er náttúrulega illa haldinn spurninganörd og mikill fótboltaáhugamaður þannig að það var mjög gaman að gera fótboltaspilið.“
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá kempurnar Gumma Ben og Hannes Þór Halldórsson spreyta sig í Krakkakviss: Fótbolta á móti verðugum andstæðingum.