Cesc Fabregas, þjálfari Como á Ítalíu, segir ekkert hæft í sögusögnum um að Ansu Fati sé á leið til félagsins frá Barcelona.
Ítalskir og spænskir miðlar segja að Fabregas vilji styrkja Como-liðið fyrir átökin í seinni hlutanum til að tryggja það að Como haldi sæti sínu í Seríu A.
Þeir Ansu Fati og Eric Garcia hafa báðir verið orðaðir við Como, en þeir eru á mála hjá Barcelona, fyrrum félagi Fabregas.
Fati hefur ekki verið í hóp hjá Barcelona í síðustu fjórum leikjum og talið að félagið sé opið fyrir því að losa sig við hann í þessum glugga.
Spænski þjálfarinn segir hins vegar ekkert til í því að Como sé að reyna að fá Fati.
„Sögusagnir um Ansu Fati eru ekki sannar. Það er ekkert til í þessu,“ sagði Fabregas.
Enski miðjumaðurinn Dele Alli hefur verið að æfa með Como síðustu vikur. Hann byrjaði að æfa á annan í jólum og staðfesti Fabregas að hann væri enn þar.
„Dele Alli er enn að æfa með okkur. Við erum hér til að hjálpa honum og síðan munum við sjá til hvað gerist,“ sagði Fabregas.
Athugasemdir