Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 18. mars 2021 11:31
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kristján Gauti ekki lengur í FH - Skórnir aftur upp á hillu?
Kristján Gauti Emilsson.
Kristján Gauti Emilsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sóknarmaðurinn Kristján Gauti Emilsson mun ekki spila með FH í sumar.

Kristján Gauti tók fram skóna aftur á síðasta ári eftir að hafa lagt þá á hilluna fjórum árum áður.

Kristján Gauti er 27 ára gamall og uppalinn FH-ingur en hann þótti einn efnilegasti leikmaður landsins fyrir rúmum áratug. Fjölmörg lið frá Evrópu sýndu honum áhuga áður en hann samdi við enska stórliðið Liverpool árið 2009.

Hann eyddi þremur árum með unglinga- og varaliði félagsins áður en hann sneri aftur til FH árið 2012. Kristján Gauti spilaði með Fimleikafélaginu næstu tvö árin en öflug byrjun hans sumarið 2014 skilaði honum samningi hjá NEC Nijmegen í Hollandi.

Kristján lék í Hollandi í tvö ár áður en hann ákvað óvænt að leggja skóna á hilluna og fór að einbeita sér að öðru.

Hann sneri aftur á fótboltavöllinn með uppeldisfélagi sínu síðasta sumar og sagði hann þá í viðtali: „Ég var mjög mikið meiddur, þrálát meiðsli trekk í trekk. Ég þurfti að taka þessa ákvörðun fyrir sjálfan mig. Ég fann fyrir áhugaleysi og var ekki spenntur að mæta á æfingar. Þetta var virkilega erfið ákvörðun, en ég sé ekki eftir henni. Ég fann fyrir því að áhuginn væri kominn aftur og þess vegna ákvað ég að taka fram skóna. Ég er virkilega ánægður með það."

Kristján spilaði þrjá leiki í deild og bikar síðasta sumar með FH-liðinu sem hafnaði í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar.

Ekki náðist í Kristján Gauta við vinnslu fréttarinnar og ekki er vitað með vissu hvort að skórnir séu aftur komnir upp á hillu, þó það þyki líklegt. Það styttist í sumarið og hefst til að mynda Pepsi Max-deildin eftir rúman mánuð.

Sjá einnig:
Fór úr atvinnumennsku í fótbolta yfir í kvikmyndagerð
Athugasemdir
banner
banner