Brasilískir miðlar halda því fram að Liverpool sé nálægt því að ná samkomulagi við Wolves um kaup á Joao Gomes.
Gomes er 24 ára gamall og spilað með Wolves síðustu tvö ár eða síðan hann kom frá Flamengo í heimalandinu.
Hann hefur verið einn af þeim fáu ljósu punktum í fallbaráttunni, en þetta gæti verið hans síðasta tímabil enda áhuginn mikill.
Manchester United hefur áður sýnt honum áhuga en samkvæmt miðlum í Brasilíu er Liverpool að leiða kapphlaupið og sagt vera nálægt því að ganga frá samkomulagi við Wolves.
Wolves vill fá að minnsta kosti 50 milljónir punda fyrir Brasilíumanninn, sem hefur áður lýst yfir áhuga á að spila með Liverpool.
„Liverpool er lið sem ég væri til í að spila fyrir. Ég hef ótrúlega þrá fyrir því að spila þar og að spila í Meistaradeildinni er minn stærsti fótboltadraumur,“ sagði Gomes fyrir þremur árum síðan er hann var spurður út það að njósnarar Liverpool væru að fylgjast með honum.
Athugasemdir