Man Utd og Liverpool vilja Cherki - Arsenal skoðar Coman - Tottenham og Man Utd vilja markvörð Frankfurt - Chelsea reyndi við Van Dijk - Garnacho...
   fös 18. apríl 2025 10:23
Ívan Guðjón Baldursson
Messi: Yamal ótrúlega hæfileikaríkur - Pep frá annarri plánetu
Mynd: EPA
Argentínska goðsögnin Lionel Messi gaf kost á sér í viðtal í gær og svaraði ýmsum spurningum.

Hann ræddi fortíðina, nútíðina og framtíðina en Messi verður 38 ára gamall í sumar og er gríðarlega spenntur fyrir næstu heimsmeistaramótum. HM félagsliða er í sumar og HM landsliða næsta sumar og vonast Messi til að ná báðum mótum.

„Ég hlakka til að spila á HM í sumar en ég er líka að horfa til HM á næsta ári. Ég hef ekki tekið neina ákvörðun varðandi næsta ár, ég þarf fyrst að sjá hvernig líkamanum líður eftir að yfirstandandi tímabili lýkur," sagði Messi meðal annars, og sneri sér svo að fortíðinni hjá Barcelona.

„Ég vildi alltaf snúa aftur til Barcelona. Ég elskaði dvöl mína þar en ég gat ekki snúið aftur til baka eftir að ég fór. Ég vissi að ég vildi ekki spila fyrir neitt annað lið í Evrópu og var harður á því, svo ég skipti um heimsálfu.

„Núna er ekkert sem ég á eftir að gera. Ég átti bara eftir að sigra HM en er núna búinn að því. Ég hef sigrað allt."


Messi er ennþá mikill stuðningsmaður FC Barcelona og segist vera gríðarlega spenntur fyrir ungstirninu Lamine Yamal. Þá ræddi hann einnig um fyrrum þjálfara sinn hjá Barcelona, Pep Guardiola.

„Lamine Yamal er ótrúlega hæfileikaríkur og hefur þegar unnið EM með spænska landsliðinu. Hann er bara 17 ára gamall og á enn eftir að klára að stækka, bæði líkamlega og sem leikmaður. Hann er nú þegar orðinn einn af bestu fótboltamönnum heims og mun bara verða betri með tímanum. Hann er magnaður.

„Pep Guardiola er frá annari plánetu. Hann er öðruvísi þjálfari, hann sér hluti sem enginn annar sér. Hann breytti fótboltaheiminum þegar hann var við stjórn hjá Barcelona, öll önnur lið reyndu að herma eftir okkur. Um tímaskeið var eins og Pep hefði skaðað fótboltaheiminn því öll liðin reyndu að spila fótboltann sem hann lét okkur spila með Barca."

Athugasemdir
banner